Halldóra sár og reið: Sagt upp og vinsamlegast beðnir um að sækja ekki aftur um

23. febrúar 2021
14:29
Fréttir & pistlar

„Stéttarfélögunum sem um ræðir misbýður algjörlega aðför að láglaunafólki á covid tímum og telur þetta ískaldar kveðjur,“ segir Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður Bárunnar stéttarfélags á Selfossi.

Fjögur stéttarfélög; Afl, Drífandi, Báran og Verkalýðsfélag Suðurlands hafa sent frá sér áskorun um að uppsagnir í ræstingum og þvottahúsi á Heilbrigðisstofnun Suðurlands verði dregnar til baka.

Í áskoruninni sem barst fjölmiðlum eftir hádegi í dag kemur fram að enn og aftur séu það starfsmenn í ræstingu og nú einnig í þvottahúsi Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) sem verða fyrir barðinu á uppsögnum vegna svokallaðrar hagræðingar.

„Afl starfsgreinafélag, Báran, stéttarfélag, Drífandi stéttarfélag og Verkalýðsfélag Suðurlands mótmæla fyrirhuguðum uppsögnum á ræstingafólki og starfsmönnum í þvottahúsi hjá HSU. Réttindi og kjör þeirra starfsmanna sem munu verða ráðnir í þessi störf munu verða lakari en hjá þeim starfsmönnum sem hafa gengt þeim til þessa,“ segir í áskoruninni en í henni kemur einnig fram að Starfsmönnum hafi verið tilkynnt í framhaldinu að ekki væri óskað eftir starfsumsóknum frá þeim hjá nýjum atvinnurekanda.

Vísað er í frétt sem birtist á vef ríkiskaupa þann 19. febrúar síðastliðinn um að árangursríkt útboð HSU á ræstingu hafi átt sér stað. Var bent á að kostnaður væri langt undir kostnaðaráætlun

„Hljómar þessi frétt eins og dæmalaus siguryfirlýsing um að tekist hafi að lækka launakostnað starfsfólks, sem er á algjörum lágmarkstöxtum við erfiða vinnu. Þetta eru kaldar kveðjur frá yfirstjórn stofnunarinnar og vægast sagt lítilsvirðing fyrir störfum þessa hóps sem hafa ekki síður verið í framlínunni sérstaklega á tímum þessarar farsóttar,“ segir í áskoruninni.

Þar skora stéttarfélögin á stjórn stofnunarinnar að hætta við fyrirhugaðar uppsagnir og um leið aðför að þessum störfum. Undir áskorunina skrifa Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður Afls, Arnar G. Hjaltalín, formaður Drífanda, Halldóra Sigr. Sveinsdóttir, formaður Bárunnar og Guðrún Elín Pálsdóttir, formaður Verkalýðsfélags Suðurlands.