Halldór reiður: er verið að svelta okkur til hlýðni?

„Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er úti á túni við að draga úr fátækt því fátækt hefur þvert á móti aukist í íslensku samfélagi.“

Þetta segir Halldór Sævar Guðbergsson, varaformaður Öryrkjabandalags Íslands í grein í Morgunblaðinu. Þar gagnrýnir hann stjórnvöld harðlega. Greini ber heitir: Er verið að svelta okkur til hlýðni? Halldór segir:

 „Í meira en áratug hafa íslensk stjórnvöld viljað leggja niður núverandi örorkumat og taka upp svokallað starfsgetumat. Á meðan stjórnvöld vinna undirbúningsvinnuna bíða öryrkjar eftir kjarabótum þannig að þeir geti framfleytt sér og sínum á viðunandi hátt og tekið þátt í samfélaginu eins og aðrir. Það er alveg ljóst að stjórnvöld eiga mikið starf óunnið áður en starfsgetumat kemur til framkvæmda og í mínum huga er ég ekki sannfærður um að stjórnvöldum takist ætlunarverk sitt, en ef þeim tekst það mun það taka nokkur ár.“

Veltir Halldór fyrir sér hvað öryrkjar eigi að gera á meðan til að framfleyta sér. Þá bendur hann á að örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins sé í dag um 247 þúsund krónur fyrir skatt. Þegar skattar hafa verið greiddir af 247 þúsundum séu um 212 þúsund krónur eftir til ráðstöfunar.

„Það er öllum ljóst að þessi lága upphæð hrekkur skammt í heimilisbókhaldinu og illmögulegt er að ná endum saman og þurfa örorkulífeyrisþegar að lifa á loftinu seinni hluta hvers mánaðar. 1. janúar síðastliðinn fengu örorkulífeyrisþegar að jafnaði innan við 8 þúsund kr. eftir skatta í hækkun á lífeyri fyrir árið 2019 og ljóst er að verðbólgan á þessu ári mun éta hækkunina upp og því verður engin raunhækkun þetta árið.“

 „Allir fá mun meiri hækkun en við! Í mörg ár hefur örorkulífeyrir verið á pari við atvinnuleysisbætur en frá og með 1. janúar sl. munar rúmum 32 þúsund kr. á mánaðargreiðslum. Við hjá Öryrkjabandalaginu höfum þráspurt stjórnvöld hverju þetta sætir en fáum engin skýr svör og menn yppta öxlum og segja að þetta hafi bara gerst, eins og stjórnvöld hafi ekki komið nálægt breytingunum. Sýnið okkur sanngirni og virðingu!“

„Stjórnmálamenn og -konur bera alla ábyrgð á slæmum kjörum öryrkja og það er löngu orðið tímabært að losa fatlað og veikt fólk út úr fátæktargildrum t.d. með því að losa okkur undan krónu-á-móti-krónu-skerðingunni. Svona skerðingar þekkjast ekki í nágrannalöndum okkar og allir stjórnmálaflokkar á Alþingi hafa sagt að það eigi að afnema þetta óréttlæti strax en ekkert gerist.“

Þá gagnrýnir Halldór ríkisstjórnina sem hækkaði atvinnuleysisbætur um rúmar 42 þúsund krónur á sama tíma og öryrkjar og aldraðir hafi aðeins fengið 3,6 prósent hækkun.

 „Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur er úti á túni við að draga úr fátækt því fátækt hefur þvert á móti aukist í íslensku samfélagi. Ég skora á Katrínu að stíga fram og verja þá sem verst standa án tafar. Fyrst er að viðurkenna vandann og síðan að bregðast við honum með ábyrgum hætti.“