Hall­dór: Mið­flokkurinn þarf að fórna Gunnari Braga – Eigin­konurnar segja nær allar það sama

„Næstum án undan­tekningar heyri ég eigin­konur manna hlið­hollra Mið­flokknum segja við mig: Ég kýs ekki Mið­flokkinn ef Gunnar Bragi Sveins­son býður sig fram,“ segir Hall­dór Gunnars­son, full­trúi í flokks­ráði Mið­flokksins, í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Til­efnið greinar Hall­dórs er auka­lands­þing Mið­flokksins sem haldið var um liðna helgi, en Hall­dór segir að sam­kvæmt lögum flokksins sé heimilt að boða til slíks þings ef brýna nauð­syn ber til. Hall­dór veltir fyrir sér hver þessi brýna nauð­syn hafi verið.

„Var það til að hlusta á frá­bæra ræðu formannsins? Hann skil­greindi stefnu flokksins og helstu á­herslur fyrir komandi kosningar, sem yrðu að ná til kjós­enda, þannig að flokkurinn næði þeirri stöðu að komast í næstu ríkis­stjórn, til þess að geta staðið vörð um sjálf­stæði landsins, varið at­vinnu­vegi og grunn­gildi og hlúð að þeim sem veikast standa. Eða var auka­lands­þingið haldið til þess að tryggja stöðu Gunnars Braga Sveins­sonar með því að breyta lögum flokksins og leggja niður vara­for­manns­em­bættið, en við­halda samt ó­breyttri stöðu Gunnars sem formanns þing­flokksins með sömu á­hrifum og áður?“

Hall­dór telur að brýnt hafi verið að á­kveða hver staða Gunnars Braga ætti að vera. Það hafi þó ekki komið fram í beinni til­lögu, hvað þá að það hafi verið sagt.

„Í við­ræðum við flokks­menn um þetta hef ég heyrt til skiptis að staða hans hefði verið tryggð ó­breytt eða að með þessu hafi flokkurinn losnað við hann. Ef flokkurinn á að ná þeirri stöðu sem for­maðurinn talaði fyrir verður flokkurinn að ná jafnt til karla og kvenna, sem ég tel að flokkurinn muni ekki gera með fram­boði Gunnars Braga Sveins­sonar við næstu al­þingis­kosningar,“ segir hann.

Hann vísar í skoðana­kannanir sem sýna að konur kjósa síst flokkinn og þetta stað­festi síðasta fram­boð flokksins til sveitar­stjórnar á Austur­landi á sinn hátt.

„Næstum án undan­tekningar heyri ég eigin­konur manna hlið­hollra Mið­flokknum segja við mig: Ég kýs ekki Mið­flokkinn ef Gunnar Bragi Sveins­son býður sig fram. Þegar ég spyr um á­stæður er svarið það sama, sem ég þarf ekki að endur­segja, því allir virðast sam­mála um á­stæðuna,“ segir hann og bætir við að bændur hlið­hollir Mið­flokknum hafi sagt það sama, að við­bættri gagn­rýni á for­ystu Gunnars sem utan­ríkis­ráð­herra, meðal annars vegna við­skipta­banns Rússa og að ekki var á­kveðið endan­lega að aftur­kalla um­sókn um inn­göngu í ESB.