Halla hugsi yfir bæklingi sem 16 ára stúlka á heimilinu fékk inn um lúguna

„Ég er hugsi yfir bæklingi sem 16 ára stúlka á heimilinu fékk inn um lúguna frá Lögreglufélagi Reykjavíkur,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í færslu á Facebook-síðu sinni.

Yfirskrift bæklingsins sem um ræðir er „Það er farsælt að fylgja lögum“ og má þar finna ýmsar upplýsingar, til dæmis um sakavottorð og brot á ýmsum lögum. Á einum stað í bæklingnum segir til dæmis: „Mikilvægt er að hugsa áður en við framkvæmum, því að það sem við gerum í dag hefur áhrif á líf okkar síðar.“

Halla segir að bæklingurinn hafi að vísu verið stílaður á móður stúlkunnar vegna persónuverndarlaga og væntanlega sé mælst til þess að hún fari yfir efni bæklingsins með dótturinni.

„Hér er ábending til unglinga sem eru að feta sig út í lífið um að haga sér því annars gæti maður fengið óhreint sakavottorð, sem jú fylgir manni út lífið rétt eins og húðin og hjartað.

Einstaklingur telst sakhæfur við 15 ára aldur. Nú skulu foreldrar setjast niður með unglingnum og fara yfir allt sem ekki má,“ segir Halla Signý sem endar færsluna á þessum orðum.

„Ég bara spyr hvað hafa þau átt að gera fram að því? Ég kann ekki við svona forræðishyggju. Víst skulum við fylgja lögum það er farsælast en er þetta besta framsetningin á umvendinni frá lögreglunni?“

Sitt sýnist hverjum um efni bæklingsins og taka nokkrir undir með Höllu um að forræðishyggjan sé alltaf að verða meiri og meiri.

„Þarna er dálítið verið að ganga út frá því strax að unglingar séu slæmir og hafi í hyggju að brjóta af sér. Ég segi ekki að fræðslan sé slæm en ég er líka hugsi yfir þessari nálgun,“ segir í einni athugasemd við færslu Höllu.

Aðrir sjá ekkert athugavert við nálgun Lögreglufélags Reykjavíkur. „Ég segi nú bara: þessi bæklingur má koma og það fyrr. Jafnvel um 13 ára aldurinn. Rétt eins og að foreldrar fá ísskápssegul um verndun æskunnar með ýmsum ábendingum um uppeldi,“ segir í einni athugasemd.