Hafsteinn vill að eldri borgarar stofni stjórnmálaflokk

Hafsteinn Sigurbjörnsson, eldri borgari, segir að eina vopnið sem gamla fólkið hér á landi hefur sé að stofna stjórnmálaflokk til að berjast fyrir réttindum sínum. Það óttist núverandi valdhafar.

Hafsteinn skrifaði áhugaverða grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær þar sem hann benti á að á meðal eldra fólks væri raunar mikil umræða um stofnun stjórnmálaflokks á þess vegum.

„Kannanir hafa verið gerðar meðal eldri borgara og var niðurstaðan sú að meirihluti þátttakenda var jákvæður varðandi þessa hugmynd. Stjórn LEB hefur fengið þetta mál til meðferðar og það undarlega gerðist að fyrsta verk þess var að fara á fund forystumanna núverandi stjórnmálaflokka og spyrja þá hvort þeir hefðu nokkuð við það að athuga að samtök eldri borgara stofnuðu stjórnmálaflokk! Þessi vinnubrögð eru vægast sagt hlægileg og furðuleg í meira lagi; að spyrja andstæðinga um leyfi til að keppa við þá í kosningum til Alþingis.“

Að mati Hafsteins sýnir þetta að forystusveit Landssambands eldri borgara sé óhæf til baráttu fyrir eldra fólk. Hann bendir á að nú sé staðan þannig að rösklega 45 þúsund manns hér á landi séu 67 ára eða eldri.

„Og í síðustu kosningum 2017 voru 196.259 atkvæði gild til kjörs þeirra 63 þingmanna sem nú sitja á Alþingi. Þetta þýðir að hver núverandi þingmaður hefur 3.115 atkvæði á bak við sig. Þetta þýðir að eldri borgarar gætu nú átt átta manns á þingi með 100% þátttöku,“ segir Hafsteinn.

„Segjum að í alþingiskosningum kysi aðeins helmingur eldri borgara flokk sinn, þá gæfi það fjóra þingmenn. Flestir eldri borgarar hafa eignast afkomendur og ég tel víst að nokkur hluti þeirra myndi kjósa mömmu eða pabba eða afa og ömmu, svo þaðan gætu komið mörg atkvæði, sem gerði nokkuð öruggt að framboð stjórnmálaflokks á vegum eldri borgara næði góðri stöðu á Alþingi.“

Hafsteinn segir að eldra fólk sem hætt er brauðstritinu hafi nægan tíma til að starfa að ýmsum þjóðfélagsmálum og það sé hreinlega skammarlegt hve lítið er um að nýta starfskrafta þess.

„Af langri reynslu hefur það sýnt sig að loforð stjórnmálmanna um kjarabætur fyrir eldra fólk eru loforðin ein, sem enginn tekur mark á lengur. Verkfallsvopnið er það afl sem alþýða þessa lands hefur beitt til að berjast fyrir bættum kjörum, en það er ekki okkar lengur. Því er eina vopnið sem gamla fólkið hefur að stofna stjórnmálaflokk, því það óttast núverandi valdhafar. Með því að eignast þingmenn á löggjafarþingi landsins myndi staða eldri borgara gjörbreytast, en því miður er ekki mikil von til þess að úr því verði meðan forysta LEB er eins og hún er.“