Hættir að hlusta á Megas: „Sumir hlutir svo hræðilegir að það er engin leið til baka“

Viðtal Stundarinnar við Bergþóru Einarsdóttur fyrir helgi vakti mikla athygli. Í viðtalinu lýsti Bergþóra kynferðislegu ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu Magnúsar Þórs Jónssonar, Megasar, ásamt öðrum manni árið 2004.

Bergþóra lagði fram kæru á hendur þeim árið 2010 en þá sagði lögregla brotið vera fyrnt og ríkissaksóknari sá ekki tilefni til að endurskoða ákvörðunina. Bergþóra sagði í viðtalinu við Stundina að hún hafi síðar lesið textann við lagið Litla ljót, nafn sem Megas hafi kallað hana fyrir atburðinn, og séð þar hrópandi samsvörun við það sem hafi átt sér stað.

Áfall að lesa greinina

Viðtalið hefur vakið talsverða umræðu á samfélagsmiðlum og skrifaði Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku, færslu sem vakið hefur talsverða athygli.

Eiríkur eignaðist sína fyrstu plötu með Megasi árið 1975 og þótti honum textarnir hans skemmtilega ófyrirleitnir, enda Eiríkur ungur og róttækur á þessum árum. Eiríkur viðurkennir að hann hafi verið mikill aðdáandi Megasar og alla tíð vitað að hann væri enginn engill.

„En það var samt verulegt áfall að lesa greinina í Stundinni fyrir helgi. Ég hef látið mér nægja þessar gömlu plötur hans frá áttunda og níunda áratugnum og hafði því aldrei heyrt eða lesið textann um "Litlu ljót". En ég las hann og þá magnaðist áfallið um allan helming,“ segir Eiríkur og bætir við að textinn sé ógeðslegur.

„Ef hann er lýsing á raunverulegum atburðum eins og allt bendir til verður hann beinlínis viðbjóðslegur og fyrirlitlegur. Og þá fer maður líka að hugsa hvort fleiri textar skáldsins séu kannski lýsing á einhverju sem hann hefur gert. Mig langar ekki að vita það. Mér finnst Megas enn mikill listamaður og ég ætla ekki að henda Megasarplötunum mínum. En mig langar ekkert til að hlusta á þær,“ segir hann að lokum.

Partíið stóð of lengi

Guðmundur Andri Thorsson, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, tekur að mörgu leyti undir þetta.

„Ég hætti að hlusta á Megas mér til skemmtunar eftir bókina Björn og Svein, og mér þótti þetta Megasukk dæmi einstaklega lítið skemmtilegt, það litla sem ég heyrði af því, klasturslegt klám, bölv og ragn, en horfið eitthvað element sem hann hafði áður haft til að bera, eitthvað bit, orðinn slappur eins og menn verða þegar partíið stendur of lengi,“ segir Guðmundur Andri í athugasemd undir færslu Eiríks.

Hann segir að snilli Megasar hafi endað í einhverju þvogli.

„En hitt var verra: Smám saman leiddi þessi afstaða hann inn í einhvers konar siðrof; stað þar sem allt má, og þar sem nautnin verður æ harðsóttari. Viðtalið sterka í Stundinni sýndi okkur að þegar fengist er við svona tilraunir eins og hann gerði – þá eru þar alltaf fyrir raunverulegar manneskjur, raunveruleg ung stúlka með sitt líf, sínar vonir og þrár – sinn rétt.“

Engin leið til baka

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens leggur einnig orð í belg við færslu Eiríks, en hann lýsti því fyrir helgi að hann hefði snúið baki við Megasi árið 1994. Hann ítrekar það undir færslu Eiríks.

„Ég hef ekki getað hlustað á hann síðan 1994. Sumt er bara þannig þó maður gerir sér grein fyrir hversu orðhagur hann er og snjall sem listamaður þá eru sumir hlutir þesslegir og svo hræðilegir að það er engin leið til baka og verður aldrei.“