Hringbraut skrifar

Hætt við að henda Maní úr landi: Lagður inn á barnaspítala hringsins

16. febrúar 2020
22:49
Fréttir & pistlar

Til stóð að vísa Maní, 17 ára transdreng og foreldrum hans til Portúgal í fyrramálið. 300 manns mættu fyrir utan dómsmálaráðuneytið í dag til að mótmæla ákvörðun yfirvalda. Shokoufa, móðir Maní sagði í sam­tali við Frétta­blaðið á föstu­daginn um leið og hún rakti erfiða sögu fjöl­skyldunnar.

„Okkur líður alls ekki vel. Við erum skelfingu lostin. Maní, sonur minn, vill alls ekki fara til baka. Hér hefur hann fundið fyrir öryggi og eignast vini.“

Þá höfðu skólafélagar hans einnig mótmælt harðlega. Á vef Fréttablaðsins í dag sagði:

Fjöl­skyldan kemur frá Íran en flúði þaðan til Portúgal þar sem hún dvaldist í nokkra daga áður en haldið var til Ís­lands. Í Portúgal hafa þau ekki hlotið neina vernd en voru þar með sjö daga ferða­visa, vega­bréfs­á­ritun sem veitir inn­göngu í viss lönd, sem þau notuðu til að komast til Ís­lands.

Maní er nemandi við Fjöl­brauta­skóla Suður­nesja, þar sem hann hefur fest rætur, eignast vini og tengst sam­fé­laginu. Hann hefur fengið mikinn stuðning frá hin­segin sam­fé­laginu á Ís­landi og er ljóst að réttindi hans eru tölu­vert meiri sem hin­segin ein­stak­lingur hér á Ís­landi en í Portúgal og Íran.

Á Facebook-síðu No Borders er greint frá því að brottvísuninni hafi verið slegið á frest.

Í tilkynningunni segir:

„Brottvísuninni hefur verið frestað vegna annarlegs ástands Maní, en hann var rétt í þessu lagður inn á barna- og unglingageðdeild Landspítalans, í hvíldarinnlögn.

Lögreglan hefur staðfest þetta við Claudie, lögmann hjá Rétti sem tók nýlega við máli fjölskyldunnar.

Þó að það sé mikill léttir að brottvísuninni hafi verið frestað, þá er vægast sagt hrikalegt að íslensk stjórnvöld hafi ekki gripið inn í fyrr, en það hefur verið ljóst frá fimmtudegi að málið var ekki nægjanlega rannsakað og að um hugsanleg brot á rétti hans til að tjá sig við yfirvöld hefðu átt sé stað í málsmeðferðinni. Útlendingastofnun á að hafa verið á vakt um helgina að fara yfir mál Maní og fjölskyldu hans, en samt var engum tölvupóstum lögmanns þeirra svarað, né þeirra eigin beiðni eftir gögnum. Ekki var heldur tekið tillit til þess að stormurinn á föstudaginn hefði valdið því að lögmaður gat ekki fengið öll umbeðin.

Barn á ekki að þurfa að hrynja niður í dýpsta myrkur og þurfa á neyðaraðstoð lækna, til þess að lögreglan og dómsmálaráðherra hlusti.

Á meðan við biðum eftir Maní þar sem hann var í viðtali hjá barnageðlækni, hringdi lögregla stoðdeildar í Shokoufa, móðurina, til að vita hvar þau væru. Svo virðist sem það hafi átt að framkvæma brottvísunina þrátt fyrir all sem á undan var gengið. Sem betur fer þvertóku læknar fyrir að brottvísunin færi fram í nótt.

Við reiknum með því að baráttan þurfi að halda áfram næstu daga. Vonandi nær Maní að hvíla sig í ró sem ætti að vera svo sjálfsögð fyrir barn, á meðan við hin klárum þetta mál!“