Gylfi Þór: „Það að mamma hafi verið myrt kom mér í raun hingað“

„Það að mamma hafi verið myrt og öll sú sorg í kringum það kom mér í rauninni hingað. Það er mömmu að þakka að ég er hér,“ segir Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður sóttvarnarhúsa Rauða krossins, í viðtali við Smartlandsblaðið sem fylgir Morgunblaðinu í dag.

Gylfi hefur haft í nógu að snúast undanfarna mánuði enda hafa gestir streymt í sóttvarnarhúsin nú þegar farið er að sjá fyrir endann á COVID-19-faraldrinum.

Viðtalið við Gylfa er athyglisvert en þar lýsir hann miklum harmi í lífi sínu árið 1996 þegar móðir hans var myrt af bróður sínum. Gylfi var þá 26 ára gamall.

„Það var eitthvað sem maður býst aldrei við að lenda í. Að einhver sé tekinn frá manni svona snemma. Það er rosalega erfitt að viðurkenna þann möguleika að þetta geti yfir höfuð gerst,“ segir Gylfi meðal annars í viðtalinu.

Móðir hans hafði farið norður í land til að heimsækja bróður sinn, meðal annars í þeim tilgangi að gera upp erfið mál eftir andlát ömmu Gylfa. Í fyrstu taldi Gylfi að móðir hans hefði látist af völdum asma sem hrjáði hana. Það var ekki fyrr en daginn eftir að hann komst að því að morð hafði verið framið.

Ekki löngu eftir að móðir hans lést rak Gylfi augun í auglýsingu í Morgunblaðinu þar sem Rauði krossinn auglýsti eftir fólki í viðbragðshóp. Svo fór að Gylfi sótti um og lærði áfallahjálp. Hefur hann í raun helgað líf sitt því að hjálpa öðrum allar götur síðan.

„Þessi vinna kom mér í þá vinnu sem ég er í í dag, að reka þetta farsóttarhús sem ég er búinn að vera vakinn og sofinn yfir í meira en ár. Það að mamma hafi verið myrt og öll sú sorg í kringum það kom mér í rauninni hingað. Það er mömmu að þakka að ég er hér. Ég vissi ekkert hvers vegna ég fór að læra þessa sálrænu skyndihjálp. Ég er hérna í dag vegna þess hvernig fór fyrir henni,“ segir hann meðal annars í viðtalinu.