Gylfi Þór svarar Öfgum vegna notkunar X Mist Ingó í farsóttarhús: „Gaf ekki leyfi fyrir myndbirtingunni“

Meðlimir Öfga hafa sett stórt spurningamerki við auglýsingu X-Mist um að efnið sé notað á sóttvarnarhótel vegna Covid-19. Ástæðan er eignarhald X Mist, en þar er að baki Ingólfur Þórarinsson, best þekktur sem Ingó veðurguð. Hann var sakaður um brot í fyrra, sem hann hefur staðfastlega neitað fyrir. Hefur hann sent kröfubréf á nokkra aðila og stendur til að eitt þeirra mála verði tekið fyrir á vettvangi dómstóla á næstunni.

Tanja Ísfjörð deildi auglýsingu X Mist á Twitter og sagði:

„Þið eruð að tryggja fjármagn í vasa manns sem nýtir það í að KÆRA konur fyrir að skila skömminni. NENNIÐI AÐEINS.“

Gylfi Þór Þorsteinsson forstöðumaður farsóttarhúsanna svaraði henni:

„Heil og sæl, mér er ljúft og skylt að svara fyrir þetta. Ég tók þessa ákvörðun eftir að hafa prófað mörg efni til að sótthreinsa viðkvæma fleti en ekki síst til að losna við reykingarlykt úr herbergjum,“ sagði hann.

„Við höfum átt í vandræðum með þau herbergi þar sem reykt hefur verið og eftir að hafa prófað margt, ákvað ég að halda áfram á prófa þetta efni. Sú prófun byrjaði í síðustu viku og mun halda áfram næstu dagana. Að því loknu verður tekin ákvörðun um kaup eða ekki.“

Þá tók hann fram:

„Rauði krossinn gaf ekki leyfi fyrir myndbirtingunni sem fylgdi með þessum status frá söluaðilana efnisins svo það sé tekið fram.“