Gylfi skammar öku­fant á svörtum Range Rover – „Sjálfagt þurft að sinna mikil­vægu erindi“

Gylfi Magnús­son, dósent í við­skipta­fræði­deild Há­skóla Ís­lands og fyrr­verandi efna­hags- og við­skipta­ráð­herra, var brugðið í dag þegar hann varð vitni að því er svartri Range Rover-bif­reið var ekið ó­gæti­lega norður Lindar­braut á Sel­tjarnaresi.

Gylfi segir frá þessu í Face­book-hóp íbúa á Sel­tjarnar­nesi.

„Rétt áðan var öku­maður á svörtum Range Rover á leið norður Lindar­braut hárs­breidd frá því að aka á barn á leið yfir gang­brautina við Hof­garða. Öku­manninum fannst nefni­lega til­valið að taka á miklum hraða fram­úr strætó sem hafði stöðvað á bið­stöðinni sem er þarna. Ók svo bara á­fram eins og ekkert hefði í skorist. Hefur sjálf­sagt þurft að sinna ein­hverju mikil­vægu erindi,“ segir Gylfi.

Í­búar taka undir með Gylfa og segir einn að á þessum slóðum ætti að vera 30 kíló­metra há­marks­hraði.

„Ég hef oft hugsað að það sé ekki spurning hvort heldur hve­nær þarna verði slys. Það er mjög þarft að breyta þessu enda mörg börn sem búa í grennd við og á Lindar­braut,“ segir í­búinn og tekur undir á­hyggjur Gylfa.