Gylfi ósáttur við matinn: Þetta heitir víst „hakkréttur með kartöflumús“

Gylfi Magnússon, fyrrverandi viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og dósent í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, birti mynd af hádegismat skólabarna í Valhúsaskóla í hverfisgrúppu íbúa á Seltjarnarnesi á Facebook í gær.

Rétturinn sem myndin er af fær væntanlega seint verðlaun fyrir útlit og er Gylfi meðal annars spurður að því í athugasemd hvað þetta eigi að vera.

„Nemendur í Valhúsaskóla fá að njóta þessara kræsinga en þær koma frá Skólamat. Þetta heitir víst „hakkréttur með kartöflumús“,“ segir Gylfi.

Fjölmiðlakonan fyrrverandi Eva María Jónsdóttir leggur orð í belg og tekur undir með Gylfa. „Nestið að heiman er tímafrekara en bæði næringar- og bragðbetra að sögn nemenda. Sönn saga.“

Þá segir bæjarfulltrúinn Karl Pétur Jónsson að öll hans börn séu hætt í mat í skólanum og taka frekar með sér mat að heiman.