Gylfi Þórhallsson er látinn: Hans verður sárt saknað

Gylfi Þórhallsson, heiðursfélagi í Skákfélagi Akureyrar og fyrrverandi formaður félagsins lést í morgun eftir erfið veikindi. Gylfi var fæddur 23. maí 1954. Greint er frá andláti Gylfa á heimasíðu Skákfélags Akureyar.

Gylfi var um áratuga skeið einn virkasti og öflugasti skákmeistari félagsins. Hann varð skákmeistari Akureyrar alls 13 sinnum og skákmeistari Skákfélags Akureyrar 9 sinnum.

Gylfi var formaður Skákfélags Akureyrar í 14 ár og sat í stjórn í um þrjá áratugi.  

Þá segir á heimasíðu skákfélagsins að Gylfi hafi notið virðingar fyrir störf sín og skákiðkun um allt land. Gylfi var heiðraður fyrir störf sín af  Skáksambandi Íslands árið 2011.

Stjórn Skákfélags Akureyrar sendir aðstandendum Gylfa innilegustu samúðarkveðjur.

Hans verður sárt saknað af fjölmörgum skákvinum, bæði utan félags og innan.