Gunter vildi ekki ræða við fjölmiðla um kosningarnar í Bandaríkjunum

9. nóvember 2020
20:50
Fréttir & pistlar

Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, baðst undan viðtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis en fyrirspurn var sent til sendiráðsins í gær um málið. Að því er kemur fram í frétt Vísis svaraði talsmaður sendiráðsins, Patrick Geraghty, fyrirspurnininni.

„Þar til yfirstandandi deilur um kosningarnar eru leystar er ekki viðeigandi að við tjáum okkur frekar um þær,“ sagði Geraghty í svari sínu til fréttastofunnar. Vísir segir enn fremur að Geraghty hafi sagði aðaláherslu kosninganna hafa verið að tryggja heilindi framvindu kosninganna.

Sjá einnig: Sagn­fræðingur furðar sig á sendi­herra Banda­ríkjanna: „Hvers vegna í ó­sköpunum falast slíkur ná­ungi eftir sendi­herra­starfi?“

Líkt og áður kemur fram hafa fjölmiðlar lýst því yfir að Joe Biden hafi sigrað kosningarnar í Bandaríkjunum og því sé Donald Trump á leiðinni úr embætti. Enn á þó eftir að staðfesta niðurstöðurnar endanlega.

Gunter var tilnefndur í embættið af Trump árið 2018 og var hann síðan samþykktur árið 2019. Gunter hefur áður komist til tals í íslenskum fjölmiðlum, nú síðast þegar hann sakaði Fréttablaðið um falsfréttaflutning og afturkallaði boð Fréttablaðsins á blaðamannafund aðmíráls í lok október.

Hann er talinn dyggur stuðningsmaður Donalds Trump og hefur oft á tíðum tekið undir orðræðu forsetans, til að mynda með því að kalla COVID-19 veiruna „Kínaveiruna.“ Hann sagðist fyrr á árinu óttast um öryggi sitt og vildi til að mynda fá að bera skotvopn.