Gunnar Smári vill verða ný Vigdís Hauksdóttir

Nú bendir allt til þess að Sósíalistaflokkur Gunnars Smára komist á þing á kostnað Flokks fólksins sem fellur þá út af þingi. Þessir flokkar slást um fylgi hinna mjög svo ósáttu sem hafa ekki náð fótfestu í lífinu og kenna öðrum um, einkum yfirvöldum.

Gunnar Smári talar til þessa fólks í upphrópunum sem honum eru tamar og nær eyrum nokkurs hóps og nýjar skoðanakannanir sýna flokk hans á siglingu með um sjö prósenta fylgi á sama tíma og Flokkur fólksins marrar í hálfu kafi, vel undir fimm prósenta mörkunum sem þarf til að ná inn á þing. Gunnar Smári galar nú hærra en Inga Sæland.

Gunnar Smári er klókur og slóttugur. Hann tilkynnir sig atvinnulausan og samkvæmt tekjublöðum var hann tekjulaus í fyrra. Lifði á loftinu! Nú vill hann komast sjálfur á þing og fá hátt í tvær milljónir á mánuði; 1,3 milljónir fyrir þingsetuna og hálfa milljón fyrir að vera flokksformaður. Klárlega þess virði að leggja nokkuð á sig fyrir.

Aðferð hans er að ráðast á aðra með upphrópunum og svívirðingum að hætti Vigdísar Hauksdóttur sem skemmt hefur vinnufrið á fundum borgarstjórnar með dónaskap og fíflalátum. Gunnar vill verða ný Vigdís með hið stóra svið Alþingis sem vettvang sinn til árása og upphlaups.

Einungis kjósendur geta komið í veg fyrir það í kosningunum eftir mánuð.

- Ólafur Arnarson