Gunnar Smári upplýsir um styrkjakónga Sósíalista: „Fráleitt að við séum háð þessum auðjöfrum“

Stærstu styrkveitendur Sósíalistaflokks Íslands fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar voru Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sjóður á vegum Hagkaupssystkina sem styður samfélagslega baráttu og annar af hinum svokölluðu Skiltaköllum, sem starfar einnig sem meindýraeyðir.

Gunnar Smári Egilsson, Sósíalistaforingi, upplýsti um þetta í síðdegisþættinum áÚtvarpi Sögu. „Þetta eru styrkjakóngarnir þrír, en þetta eru bara 300 þúsund krónur og framlög þeirra hvert fyrir sig eru ekki umtalsvert hærri en tíu eða tuttugu næstu,“ sagði Gunnar Smári.

„Það er fráleitt að við séum háð þessum auðjöfrum á sama hátt og stjórnmálaflokkarnir eru háðir því sem þeir taka úr ríkissjóði. Svo eins og Samherji, þegar skoðað var á sínum tíma kom í ljós að þeir höfðu styrkt alla flokkana nema okkur.“

Pétur Gunnlaugsson, þáttastjórnandi, sagði honum sögu sem væri að ganga um bæinn um fjársterkan aðila, sem hann nefndi ekki á nafn, sem væri stór fjárhagslegur bakhjarl Sósíalistaflokksins. Gunnar Smári hafði ekki heyrt þá sögu en vissi að það væru nokkrar slíkar í umferð. „Reikningar flokksins liggja fyrir, ef fólk er með einhverjar svona grillur þá getur fólk bara séð þá.“

Hér má hlusta á viðtalið við Gunnar Smára.