Gunnar Smári tók saman hagnað bankanna: „Góður guð, hvað þetta er sjúkt“

Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson segir sjúkt að talað sé um hagnað stóru bankanna þriggja, Landsbankans, Arion Banka og Íslandsbanka, sem jákvæðan hlut.

„6,5 milljarðar á síðustu þremur mánuðum og 14,1 milljarður á fyrri hluta ársins. Samanlagður hagnaður stóru bankanna þriggja var rétt tæpir 37 milljarðar á þessum sex mánuðum. Það eru 36.900.000.000,00 kr. Ef við ímyndum okkur vél sem pentaði milljón á dag tæki það hana 101 ár að prenta hálfs árs hagnað bankanna þriggja,“ segir Gunnar Smári í grein sem hann skrifar á vef Vísis.

„37 milljarða hagnaður bankana á fyrri hluta ársins gæti gefið til kynna að þeir endi árið með tæplega 74 milljarð hagnað eftir árið. Það er um 200 þús. kr. á hvert mannsbarn. 800 þús. kr. sem hver fjögurra manna fjölskylda borgar í hreinan hagnað til bankanna á hverju ári.“

Engin þjóð önnur á byggðu bóli myndi sætta sig við slíka geggjun sem sé hlutdeild bankanna í landsframleiðslu. „Hversu lengi ætlar þjóðin að sætta sig við þessa geðveiki? Hvað er það sem bankarnir hafa gert fyrir ykkur svo þið sættið ykkur við að fertugasta hver króna sem rúllar í gegnum hagkerfið endi sem hreinn hagnaðar bankanna, eftir skatta og skyldur?“