Gunnar Smári segir Seðlabankastjóra fagna hörmungum: „Hvað er eiginlega að manninum?“

Gunnar Smári Egilsson, Sósíalistaforingi, furðar sig á Ásgeiri Jónssyni, Seðlabankastjóra, og segir hann fagna hörmungum. Ásgeir sagði á málstofu Ferðaklasans, KPMG og Samtaka ferðaþjónustunnar um viðspyrnu ferðaþjónustunnar í morgun að ferðaþjónustan sé á svipuðum stað og sjávarútvegurinn var á þegar þorskstofninn hrundi árið 1988. Gaf það tilefni til hagræðingar í sjávarútvegi og blása til sóknar.

„Hér slengir Seðlabankastjóri fram hryllingssögu eins og ekkert sé; spáir að fram undan sé viðlíka samþjöppun og yfirtaka hinna stóru á hinum litlu í ferðaþjónustu og varð í kjölfar framsalsheimildar á kvóta fyrir þrjátíu árum,“ segir Gunnar Smári í færslu á Facebook. „Og hann fagnar, að því er virðist, er bara kátur; sér fyrir Samherja og Brim ferðaþjónustunnar drottna yfir greininni og landinu öllu, stjórna hér umræðu, múta stjórnmálafólki og breyta landinu í verstöð sem þjónar aðeins allra stærstu eigendum allra stærstu fyrirtækjanna.“

Gunnar Smári segir að íbúar landsbyggðarinnar, sem hafi byggt upp ferðaþjónustuna eftir bankahrunið, geti nú búist við því að Seðlabankinn og bankakerfið standi með þeim stóru.

„Kvótakerfið hefur valdið mestri byggðaröskun í Íslandssögunni, meiri en móðuharðindi, eldgos og kuldatímabil. Seðlabankastjóri fagnar því hér að slíkar hörmungar vofa yfir fólki í ferðaþjónustu.

Hvað er eiginlega að manninum?“