Gunnar Smári rýnir í niðurstöður Sjálfstæðismanna: „Ekki hægt að merkja neina sókn hjá flokknum“

Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson segir að ekki sé hægt að merkja neina sókn hjá Sjálfstæðisflokknum eftir prófkjörið í Suðvesturkjördæmi um helgina.

„Sjálfstæðisflokksfólk breiðir nú út að mikil þátttaka í prófkjöri flokksins sé ávísun á góða útkomu í kosningunum í vor,“ segir hann á Facebook.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og oddviti í kjördæminu, sagði við Morgunblaðið í dag að hann sé ánægður með þátttökuna:

„Mér fannst fín þátt­taka í þessu próf­kjöri og það er nú oft sagt að það sé erfitt að hreyfa við þing­mönn­um í próf­kjör­um en það er nú ekki al­gilt. En það er ljóst að niðurstaðan sýn­ir stuðning við þing­menn kjör­dæm­is­ins,“ sagði Bjarni.

Gunnar Smári rýndi í tölurnar og segir: „Nú kusu 7208 í prófkjöri flokksins í Reykjavík í samanburði við 7322 árið 2012 og 5027 í Suðvestri 2012 en 4708 nú. Það er því ekki hægt að merkja neina sókn hjá flokknum.“

Hann segir að það hafi munað litlu að prófkjörið hafi orðið fréttnæmt. „Arnar Þór Jónsson héraðsdómari og vonarstjarna Brynjars/SigríðarAndersen-arms Sjálfstæðisflokksins í Suðvestri náði ekki öruggu þingsæti. Honum vantaði 99 atkvæði til að ná öðru sætinu, 94 atkvæði til að ná þriðja sætinu og 39 atkvæði til að ná fjórða sætinu.“

Gunnar Smári rýnir svo í umboð frambjóðendanna.

Bjarni Benediktsson 81% atkvæða

Jón Gunnarsson 24% atkvæða

Bryndís Haraldsdóttir 34% atkvæða

Óli Björn Kárason 41% atkvæða

Arnar Þór Jónsson 48% atkvæða

„Það er ekki hægt að lesa úr þessu annað en að hver frambjóðandi hafi komið með sitt fólk á kjörstað. Þarna er enginn afgerandi vilji hópsins alls,“ segir Gunnar Smári. „Nema hvað 4/5 Sjálfstæðisflokksmanna í Kraganum vilja að Bjarni formaður leiði listann. Það er svipaður stuðningur og Katrín Jakobsdóttir fékk í prófkjöri VG í Reykjavík, en 85% flokksmanna vildu Katrínu í annað hvort fyrsta sætið í Reykjavík (þetta er því ekki alveg sambærilegt).“