Gunnar Smári með kenningu um fram­boð Guð­mundar Frank­líns

25. maí 2020
08:38
Fréttir & pistlar

„Hvað gengur Guð­mundi Frank­lín til með for­seta­fram­boði sínu? Vill hann nota það til að kynna sig fyrir næstu þing­kosningar, trúir hann að hann geti fellt Guðna Th. eða vill hann nota þennan vett­vang til að koma til­teknum málum á dag­skrá?“

Þessum spurningum veltir Gunnar Smári Egils­son, stofnandi Sósíal­ista­flokksins, upp á Face­book-síðu flokksins.

Úr forsetaframboði á þing - og öfugt

Gunnar Smári segist ekki kunna svarið við þessum spurningum en bendir á að dæmi séu um fólk sem boðið hefur sig fram til for­seta en síðar snúið sér að stjórn­málum á vett­vangi þings. Hann viður­kennir þó að það sé ekki jafn al­gengt og að fyrr­verandi þing­menn bjóði sig fram.

„Þau sem voru á vett­vangi þings en biðu sig svo fram voru: Ás­geir Ás­geirs­son, Gísli Sveins­son, Gunnar Thor­odd­sen, Albert Guð­munds­son, Guð­rún Agnars­dóttir, Ólafur Ragnar Gríms­son og Davíð Odds­son. Sturla Jóns­son er líka í þessum hópi þótt hann hafi ekki náð inn í þing, en hann bauð sig fyrst fram til þings fyrir Frjáls­lynda flokkinn 2009 og í eigin nafni 2013 áður en hann bauð sig fram til for­seta 2016.“

Gunnar Smári nefnir að hina leiðina, það er boðið sig fram til for­seta og svo til þings, hafi til dæmis Gunnar Thor­odds­sen farið, en hann hætti á þingi, gerðist sendi­herra, fór svo í for­seta­fram­boð og svo aftur í fram­boð til þings. Hann nefnir einnig Andreu Ólafs­dóttur sem fór í for­seta­fram­boð 2012 og svo þing­fram­boð fyrir Dögun 2013, Ara Trausta Guð­munds­son sem bauð sig fram til for­seta 2012 og fór svo í fram­boð fyrir VG árið 2016. Gunnar nefnir svo Sturlu Jóns­son sem fór í for­seta­fram­boð 2016 og svo fram­boð fyrir Dögun.

Sannfærður um tap

„Og virkar þetta? Það er allur gangur á því. Kannski er reglan sú að þetta virkar fyrir fólk sem kemst á lista hjá rót­grónari flokkum en verr (eða ekki) fyrir þau sem vilja nota kynningu vegna for­seta­kosninga til að ýta undir fram­boð nýrra flokka eða þeirra sem ekki hafa náð á þing.“

Gunnar Smári virðist sann­færður um að Guð­mundur Frank­lín eigi ekki mögu­leika í Guðna Th. Jóhannes­son og segir: „Eftir tap í for­seta­kosningum ætti Guð­mundur Frank­lín því ef til vill frekar að banka upp hjá Mið­flokki eða Flokki fólksins en reyna að endur­vekja Hægri græna. Guð­mundur bauð sig fram fyrir Hægri græna 2013, sem var ár hinna mörgu fram­boða, og fékk 1,7% fylgi. Til saman­burðar fengu Píratar þá 5,1% (Birgitta Jóns­dóttir o.fl.), Dögun 3,1% (Andrea Ólafs­dóttir o.fl.), Flokkur heimilanna 3,0% (Pétur Gunn­laugs­son o.fl.), Lýð­ræðis­vaktin 2,5% (Þor­valdur Gylfa­son o.fl.) og Regn­boginn 1,1% (Jón Bjarna­son o.fl.) svo fátt eitt sé talið. Kjör­þokki Guð­mundar var á þessum tíma svona mitt á milli Jóns Bjarna­sonar og Þor­valds Gylfa­sonar,“ segir hann.