Gunnar reiddist þegar hann sá hvaða bók var í ruslinu: „Ég urlast, má ekkert lengur!!“

„Þarna lá hún innan um rusla­poka eins og að­skota­hlutur. Mín fyrstu við­brögð voru hneykslun því ég vissi undir eins hvað bjó að baki. Það hafði ein­hver fundið þessa bók í ein­hverjum af húsa­kynnum skólans og á­kveðið á rétt­trúnaðar, pólitískan hátt að koma henni fyrir kattar­nef. Koma henni úr aug­sýn sak­lausra barna ef til vill.“

Þetta segir Gunnar Dan Wi­ium smíða­kennari í at­hyglis­verðri grein sem birtist á vef Vísis í dag.

Þar segir Gunnar frá því þegar hann fann bók í rusli grunn­skólans sem hann vinnur í, en um var að ræða bókina Tinni í Kongó. Gunnar segist strax hafa talið að ein­hver hafi viljað fela bókina svo nem­endur gætu ekki kynnt sér inni­hald hennar.

„Þarna fór mót­þróar­röskun mín á fullt. Ég hugsaði eins og skot, þessir vinstri sinnuðu vegan­istar, ég urlast, má ekkert lengur!!“ Gunnar segist hafa tekið bókina upp úr ruslinu og farið með hana heim í öruggt skjól frá femín­istunum. „Þar liggur hún í ein­hvern tíma þar til ég heyri að ný þýðing þessara bókar sé verið að taka niður úr hillum hér og þar. Enn hugsa ég, má ekkert eigin­lega?!?“

Gunnar segir að þá hafi hann á­kveðið að lesa bókina og gerði hann það eftir að konan hans og barn var farið að sofa. „Svona svo­lítið eins og ég væri að laumast með subbu­legt klám­blað í skjóli nætur. Bókin, sem er 62 blað­síður af teikni­mynda­sögu var fljót­lesin,“ segir hann og bætir við að í grófum dráttum og í fyrstu hafi þetta verið sak­laus saga af Tinna, hundinum Tobba og svaðil­för um Kongó.

„Til að gera langa sögu stutta þá lendir Tinni og Tobbi í miklum hremmingum við dýr og inn­fædda. Hann drepur tals­vert af dýrum þó yfir­leitt í sjálfs­vörn nema kannski apann sem hann drepur til að getað klæðst í feldinn sem dular­gervi í björgunar­leið­angri síns ást­kæra hund­spotts,“ segir hann og bætir við að í fyrstu virðist Tinni ekki koma fram á niðrandi hátt í garð frum­byggja sem eru kynntir sem ein­faldir, barns­legir og latir.

„En ef betur er af gáð og rýnt er að­eins í söguna þá kemur í ljós ný­lendu­á­róðurinn sem skín þarna í gegn. Hvíti maðurinn er teiknaður sem bjarg­vættur hinna heimsku frum­byggja. Hvíti maðurinn er kynntur sem sá sem kennir blökku­manninum ein­falda stærð­fræði, á­sakar þá um leti og dug­leysi. Það virðist á yfir­borðinu ekki vera neinn ras­ismi í gangi en undir niðri er það greini­legt enda bókin skrifuð að ég held um 1930 á há­tindi evrópskar ný­lendu­kúgunar og fas­isma.“

Gunnar segist hafa myndað sér í­grundaða skoðun eftir lestur bókarinnar en hún er sú að bókin á alls ekki heima í ruslinu. „Hana á að kynna fyrir börnum sem heimild. Kynna sem úr­elt á­róðurs­rit ný­lendu of­beldisafla,“ segir hann og bætir við að við ættum að spyrja okkur hvar við vorum út frá heimildum, hvar við erum stödd í dag og hvert við stefnum í ósk um betra og kær­leiks­ríkara sam­fé­lag manna, óháð húð­lit, trú og menningu.

„Svo þessa bók mun ég ekki fela frá barninu mínu heldur kynna ef á­hugi er fyrir hendi og fyrir vikið skila þeirri skömm sem annars dafnar í þögn og myrkri. Þögn og myrkri sem annars þessi bók hefði endað í ef ég ekki hefði fyrir til­viljun fundið hana innan um poka fulla af ó­hreinum hand­þurrkum.“