Gunnar hjólar í Ár­mann: „Og hefur hann verið í fýlu síðan“

26. október 2020
09:34
Fréttir & pistlar

Gunnar Birgis­son, fyrr­verandi bæjar­stjóri Kópa­vogs, gefur Ár­manni Kr. Ólafs­syni, nú­verandi bæjar­stjóra, og meirihlutanum í bænum ekki háa ein­kunn. Gunnar stingur niður penna í nýjasta tölu­blaði Kópa­vog­s­póstsins og er ó­hætt að segja að hann finni nú­verandi meiri­hluta Sjálf­stæðis­flokks og Fram­sóknar­flokks flest til for­áttu.

„Erfið­lega gekk að mynda þennan meiri­hluta, þar sem bæjar­stjórinn, odd­viti Sjálf­stæðis­flokksins, vildi mynda meiri­hluta með vin­konu sinni, Theó­dóru Þor­steins­dóttur, odd­vita Bjartrar fram­tíðar/Við­reisnar. Það gekk ekki þar sem þrír af bæjar­full­trúum Sjálf­stæðis­flokksins harð­neituðu þeim ráða­hag eftir slæma reynslu af sam­starfi við téðan bæjar­full­trúa kjör­tíma­bilið 2014-2018. Það tók því langan tíma að mynda nú­verandi meiri­hluta en bæjar­stjóranum varð ekki að ósk sinni og hefur hann verið í fýlu síðan,“ segir Gunnar meðal annars.

Hann segir að ó­sætti og mis­klíð hafi ein­kennt störf Sjálf­stæðis­flokksins í Kópa­vogi á þessu kjör­tíma­bili. Þar af leiðandi sé flokks­starfið í molum.

„Þá hefur það vakið at­hygli að for­ystu­sveit Sjálf­stæðis­flokksins hefur ekkert gert í því að setja niður þessar deilur í Kópa­vogi. En á þeim bæ er fólk ekki mikið fyrir það gefið að taka á­kvarðanir sem gætu haft ein­hver ó­þægindi í för með sér.“

Máli sínu til stuðnings nefnir Gunnar að staða fram­boðs á byggingar­lóðum í Kópa­vogi, sér­stak­lega fyrir ein­býlis­hús, par­hús og litlar í­búða­einingar, sé engin.

„Einungis hefur verið út­hlutað lóðum undir háa í­búða­turna á dýrum svæðum í hjarta Kópa­vogs, svo þétt að vart er hægt að skipta um skoðun á milli turnanna. Þessi stefna hefur haft það í för með sér að ungt fólk sem vill byggja fær ekki lóðir í Kópa­vogi og verður því að snúa sér annað, svo sem til Þor­láks­hafnar, Hvera­gerðis, Ár­borgar og Voga,“ segir Gunnar sem er þeirrar skoðunar að með þessari stefnu bæjar­stjórnar sé verið að hrekja unga fólkið sem vill búa í Kópa­vogi burt.

„Kópa­vogs­bær og Reykja­víkur­borg virðast vera mjög sam­stíga í þessari veg­ferð, auk þess að vera í fyrsta og öðru sæti varðandi launa­kostnað per íbúa.“

Gunnar segir að bæjar­stjórnin sé með þessu að breyta aldurs­sam­setningu íbúa í Kópa­vogi til fram­tíðar. Börnum í leik- og grunn­skólum muni fækka veru­lega á næstu árum. Það sé slæm þróun, til dæmis fyrir nýtingu skóla- og í­þrótta­mann­virkja sem hafa byggð fyrir skatt­fé bæjar­búa. Þá muni kostnaður vegna þjónustu við eldri borgara aukast veru­lega.

„Er þessi stefna í skipu­lags­málum það sem við Kópa­vogs­búar viljum? Stefna meiri­hlutans er þó að halda á­fram á sömu braut og út­hluta einungis háum og stórum í­búðar­einingum og velta margir fyrir sér hvað búi að baki,“ segir Gunnar og bætir við að eðli­legt sé að bæjar­fé­lag út­hluti lóðum fyrir sér­býli og fjöl­býli jöfnum höndum og haldi aldurs­sam­setningu íbúa eðli­legri. Það stuðli að hag­kvæmari rekstri Kópa­vogs­bæjar.

„Það vektur at­hygli mína að nánast öll bæjar­stjórnin virðist vera ein­huga um þessa ó­gæfu­stefnu. Ætli þessi stefna upp­fylli heims­mark­mið Sam­einuðu þjóðanna? Að­gerða­leysi virðist ein­kenna störf þessa meiri­hluta. Um það ætti val Kópa­vogs­búa að snúast í næstu sveitar­stjórnar­kosningum.“