Gunnar Bragi: Þetta er það sem er bannað að ræða á Íslandi

„Má ekki ræða hvað sem er? Nei, það má ekki. Svarið við þessari spurningu er óþægilegt þar sem við teljum okkur búa í landi þar sem lýðræði ríkir, mál- og skoðanafrelsi,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, í grein sinni í Morgunblaðinu í dag.

Gunnar Bragi skrifar þar um erlenda glæpahópa á Íslandi og lætur að því liggja að sumir þeirra sem leita eftir alþjóðlegri vernd hér á landi tengist skipulögðum glæpahópum. Hann segir að þetta megi ekki ræða. „Ef þú hefur ekki sömu skoðun eða talar með sama hætti og umræðustjórarnir þá er vegið að þér með ásökunum um annarlegar skoðanir.“

Gunnar Bragi vísar í skýrslu ríkislögreglustjóra, „Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi, áhættumatsskýrsla greiningardeildar ríkislögreglustjóra“ frá maí 2019 þar sem ljósi er varpað á skipulagða misnotkun erlendra afbrotamanna á opinberum þjónustukerfum hér á landi. Í skýrslunni er einnig bent á að lögregla þekki dæmi þess að einstaklingar tengdir hópum þessum hafi komið til landsins undir því yfirskini að leita alþjóðlegrar verndar.

„Rannsóknir lögreglu leiða í ljós að einstaklingum sem tengjast þessum þremur hópum [glæpahópum] hefur verið veitt alþjóðleg vernd á Íslandi m.a. á grundvelli kynhneigðar. Nokkrir þessara karlmanna frá íslömsku ríki hafa verið kærðir fyrir kynferðislega áreitni gagnvart konum hér á landi.“

Gunnar Bragi segir að margir hafi varað við því undanfarin ár að glæpamenn noti sér neyð fólks og velferðarkerfi Vesturlanda til að hagnast.

„Við höfum líka varað við þeirri þróun sem verið hefur í nágrannalöndum okkar og að sú þróun muni verða á Íslandi. Á þetta hefur ekki verið hlustað og við sökuð um illan vilja í garð hælisleitenda og flóttafólks. Engu skiptir þótt bent hafi verið á hvernig við getum best hjálpað þeim sem sannarlega þurfa hjálp. Þetta hefur ekki mátt ræða en það verður að gera og læra af mistökum annarra. Lengi hefur lögreglan bent á hættuna af skipulagðri glæpastarfsemi. Nú ætlar ráðherra að gera „eitthvað“, enda stutt í kosningar.“