Gunnar Bragi fengið nóg: Algjört klúður að treysta Evrópu­sam­bandinu fyrir bólu­efni

Gunnar Bragi Sveins­son, þing­flokks­for­maður Fram­sóknar­flokksins, segir að ríkis­stjórninni hafi al­ger­lega mis­tekist að upp­lýsa þjóðina um hve­nær búið verður að bólu­setja nógu marga til að ná hjarðó­næmi.

Gunnar Bragi skrifar um þetta í Morgun­blaðið í dag og segir að al­gjör ó­reiða hafi ein­kennt skila­boð ríkis­stjórnarinnar um bólu­setningar. Lands­menn séu engu nær um hve­nær bólu­efni berst, hvað mikið af því og hve­nær bólu­setningu verður lokið.

„Það blasir hins vegar við öllum að það voru mis­tök að treysta Evrópu­sam­bandinu fyrir hags­munum Ís­lendinga í þessu máli í stað þess að gera sjálf­stæða samninga eða í það minnsta tryggja vara­leið og semja sjálfir við fram­leið­endur bólu­efna. Ef marka má er­lenda fjöl­miðla þá virðist vandi ESB m.a. vera sá að þeir sem á­byrgðina báru stóðu ekki undir henni. Því voru of litlir fjár­munir til reiðu til bólu­efna­kaupa og of seint farið af stað. Einnig hefur komið fram að lönd innan ESB héldu „sínum fyrir­tækjum“ á lofti og settu kvaðir um að kaupa af þeim þó langt sé í af­hendingu þeirra lyfja. Að endingu var skrif­ræðið enn einu sinni ESB til trafala á meðan Bretar gátu ein­fald­lega flýtt sínu ferli og sam­þykkt lyfin.“

Gunnar Bragi segir að það hafi enn einu sinni sýnt sig að Evrópu­sam­bandið er ó­tryggur far­vegur fyrir á­kvarðanir sem þjóðir verða að taka með hags­muni eigin borgara í huga. Hann segir að mið­stýringin frá Brussel, sem þjóðirnar létu yfir sig ganga þegar kom að kaupum á bólu­efni, hafi aug­ljós­lega ekki virkað á meðan frelsið til að á­kveða eigin hags­muni og gera samninga í sam­ræmi við þörfina nýttist Bretum, Ísraels­mönnum og fleirum.

„Frelsið er yndis­legt, sungu Ís­lendingar há­stöfum upp úr 1990 og hefur það ekkert breyst þótt sumir nái ein­hvern veginn að telja sjálfum sér trú um að það að festa sig undir hatti ESB tryggi meira frelsi. Dæmin segja annað. Undir­ritaður hefur kallað eftir því að fá af­henta þá samninga sem gerðir hafa verið um kaup á bólu­efnum. Beiðni um það barst heil­brigðis­ráðu­neytinu 4. janúar sl. Lík­lega eru þetta miklir og langir samningar því langan tíma virðist taka að skanna þá inn og senda. Nú kann að vera að samningarnir séu staðlaðir af hálfu ESB og í þeim sé að finna á­kvæði sem á ein­hvern hátt festa stjórn­völd í ferlinu og ef svo er þá er þeim mun at­hyglis­verðara að stjórn­völd skrifi undir slíkt. Sér­stak­lega í ljósi þess að Ís­lendingar eru ekki aðilar að ESB og ættu að hafa tæki­færi til þess að gæta að eigin hags­munum.“

Gunnar Bragi segir að stjórn­völd verði nú þegar að upp­lýsa allt er varðar af­hendingar­tíma lyfjanna og hve­nær bólu­setningu verður lokið.

„Ef það er rétt sem fram hefur komið hjá okkar helstu sér­fræðingum, t.d. Kára Stefáns­syni, að bólu­setningum verði ekki lokið fyrr en seint á árinu þá eru á­ætlanir ríkisins, líkt og fjár­mála­á­ætlun og fjár­lög, lítils virði og kórónu­kreppan dregst á langinn með til­heyrandi kostnaði og þjáningu fyrir lands­menn.“