Guðrún varar aðra við pari sem er á ferðalagi um landið

Guðrún Valdís Þórisdóttir, sem leigir út íbúðir til ferðamanna á Selfossi, var í áfalli þegar hún opnaði eina íbúðina í gær.

Óhætt er að segja að gestirnir hafi skilið íbúðina eftir í rúst en af ljósmyndum af dæma mátti sjá rusl í hverju horni og matvörur á víð og dreif.

Guðrún vakti athygli á umgenginni í Facebook-hópnum Bakland Ferðaþjónustunnarog varaði eindregið við fólkinu.

„Var með par í gistingu, tvo ferðamenn með breskt ríkisfang en samskipti á kínversku. Myndi segja ca 25-30 ára.

Ekki margir kínverjar að ferðast um landið þessa dagana svo eg vil vara aðra við þessu fólki.“

Guðrún segir í samtali við Vísi að hún hafi meira að segja tekið ljósmyndirnar eftir að hún var byrjuð að taka til eftir gestina. Í kjölfar þess að hún gerði athugasemdir við umgengnina hafi parið svo gefið Guðrúnu einn í einkunn fyrir gistinguna.

„Ég hef rekið hótelþjónustu í sjö ár og aldrei lent í öðru eins. Oft lent í einhverju slæmu en ekkert í líkingu við þetta,“ sagði hún í samtali við Vísi.