Guðrún Högnadóttir: Íslenskir stjórnendur skora hátt í umhyggju fyrir starfsfólki

Guðrún Högnadóttir, framkvæmdastjóri Franklin Covey, er gestur Jóns G. í þætti hans á Hringbraut í kvöld. Þau ræða hvað sé efst á baugi hjá íslenskum stjórnendum um þessi áramót en Guðrún er ráðgjafi nokkurra af stærstu fyrirtækjum landsins.

Fram kemur í viðtalinu að íslenskir stjórnendur séu að skora mjög hátt í könnunum varðandi umhyggju fyrir starfsfólki.

HVERS KONAR LEIÐTOGI ER KATRÍN JAKOBSDÓTTIR?

Þau ræða meðal annars um hvers konar leiðtogi og stjórnandi Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sé. Kafli um hana birtist í erlendri metsölubók; Twenty one days to leadership excellence, eftir Patric Leddin, prófessor við Vanderbilt háskólann í Bandaríkjunum. Bókin fór strax á metsölulistann hjá Wall Street Journal. Patric er einn af ráðgjöfum Franklin Covey og hefur margoft komið til Íslands.

„Hann heillaðist af Katrínu og hvernig hún náði af sinni einlægni og alvöru viðveru að heilla fólk upp úr skónum; bæði með sinni sýn en líka eins og góðir leiðtogar gera; að efla sjálfstraust fólks í kringum sig þannig að hver og einn sé tilbúinn til að stíga inn í sitt hlutverk; sýna ábyrgð og hafa trú á sjálfum sér.“

Franklin Covey er alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki með starfsstöðvar úti um allan heim. Fyrirtækið er skráð á markað á Wall Street og hefur gengi bréfa í félaginu hækkað verulega.

ÍSLENSKIR STJÓRNENDUR SKORA HÁTT Í UMHYGGJU FYRIR STARFSFÓLKI

Franklin Covey gerir á hverju ári fjölmargar kannanir um getu stjórnenda þar sem almennir starfsmenn eru látnir meta millistjórnendur og forstjóra – og öfugt; forstjórarnir meta millistjórnendur og starfsmenn.

Hún segir að íslenskir stjórnendur komi æ betur út í þessum könnunum en þar eru karaktereinkenni og færni til skoðunar. „Íslenskir stjórnendur eru á síðustu árum að skora mjög hátt í grunnþáttum karakters – sem mér finnst vera farmúrskarandi fréttir.“

Hún segir enn fremur: „Ánægjulegu fréttirnar varðandi íslenska stjórnendur eru þær að þeir skora mjög hátt í þáttum eins og umhyggju fyrir starfsfólki,“ segir Guðrún.

Þátturinn Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar kl. 20 í kvöld og endursýndur eftir það á tveggja tíma fresti.