Guðrún Hafsteinsdóttir fer í prófkjörsslag við þrjá núverandi þingmenn

Guðrún Hafsteinsdóttir í Hveragerði hefur nú ákveðið að taka slaginn við þrjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Hún mun tilkynna um það á næstu dögum en prófkjörið fer fram í byrjun júní.

Nokkrir flokksmenn hafa lagt að Guðrúnu að taka þátt í prófkjörinu með Jón Gunnarsson alþingismann í broddi fylkingar. Orðrómur hefur verið um þetta um skeið en Guðrún hefur verið tvístígandi. Hún er markaðsstjóri og einn eigenda Kjöríss og hefur gegnt formennsku bæði í Samtökum iðnaðarins og Lífeyrissjóði verslunarmanna.

Sjálfstæðisflokkurinn þjáist mjög af skorti á konum í forystuliði sínu. Af sextán þingmönnum eru nú einungis fjórar konur. Unnur Brá Konráðsdóttir var þingmaður Suðurlands en féll í síðustu kosningum. Hún hefur síðan verið í stöðum aðstoðarmanns í ráðuneytum en búist var við að hún gæfi kost á sér í prófkjörinu. Þegar til átti að taka gefur hún ekki kost á sér.

Jón Gunnarsson hefur lagt að Guðrúnu að bjóða sig fram í fyrsta sæti gegn núverandi oddvita flokksins, Pál Magnússon, félaga Jóns í þingflokknum.

Það bendir ekki til þess að mikill einhugur ríki þar á bæ.

Vitað er að Páll, Ásmundur Friðriksson og Vilhjálmur Árnason ætla allir að berjast af hörku fyrir sætum sínum. Þeir búa allir að ágætri þingreynslu, Páll í fimm ár en hinir tveir hafa setið á þingi í níu ár. Vilhjálmur er úr Grindavík og nýtur mikils stuðnings á Suðurnesjum þar sem nær helmingur kjósenda kjördæmisins býr. Ásmundur er einnig búsettur á Suðurnesjum en er frá Vestmannaeyjum eins og Páll Magnússon sem er þjóðþekktur úr sjónvarpi eins og kunnugt er. Allir þessir þingmenn eiga sér dygga stuðningsmannahópa sem nú verða virkjaðir.

Guðrún hefur getið sér gott orð í forystu atvinnulífsins. Nái hún að tryggja sér þingsæti verður það í fyrsta skipti í langan tíma sem flokkurinn velur sér alvöru atvinnurekanda til þingsetu. Það yrðu nokkur tíðindi.

Að undanförnu hefur nokkuð borið á umræðu í flokknum um að yngra fólk verði nú að ryðja þeim gömlu úr vegi. Bent hefur verið á að Páll Magnússon sé 66 ára, Ásmundur, Jón Gunnarsson og Kristján Þór Júlíusson séu 64 ára og þeir Brynjar Níelsson og Óli Björn Kárason 61 árs. Talað hefur verið um aldurstengda aðför að þeim.

Ef Jón Gunnarsson ætlar að nota aldur félaga sinna í þingflokknum gegn þeim í þessu prófkjöri, þá ætti hann að sýna gott fordæmi með því að víkja sjálfur af lista flokksins í Kraganum. Þessi aldursrök verða hins vegar ekki notuð gegn Vilhjálmi Árnasyni því hann er einungis 38 ára. Listi flokksins verður ekki yngdur upp með því að skipta honum út fyrir Guðrúnu sem er rúmlega fimmtug.

Ætla má að prófkjör flokksins í Suðurkjördæmi verði spennandi. Þá fást svör við því hvort frambærilegt fólk úr atvinnulífinu á möguleika gegn ríkjandi þingmönnum.