Guðrún hætt á Morgunblaðinu eftir 25 ára starf

Guðrún Hálfdánardóttir, ein reynslumesta blaðakona landsins, vann sína síðustu vakt á fréttavef mbl.is í gær. Eftir Guðrúnu liggja hátt í hundrað þúsund fréttir en hún var fyrsti blaðamaðurinn á mbl.is sem um langt árabil hefur verið mest lesni fréttavefur landsins.

Rætt er við Guðrúnu í Morgunblaðinu í dag í tilefni af þessum tímamótum.

Guðrún hóf störf á viðskiptablaði Morgunblaðsins árið 1996 og var þar fram á haust 1997. Þá tók við undirbúningur fyrir opnun fréttavefjar og fór vefur mbl.is í loftið í febrúarbyrjun 1998. „Ég var fyrsti blaðamaðurinn á vefnum,“ segir Guðrún sem hefur unnið nær sleitulaust á mbl.is síðan þá.

Guðrún segir að það eigi vel við hana að vinna undir álagi. Eldgosin séu vinsæl og þá nefnir hún að bankahrunið hafi verið einn eftirminnilegasti tíminn á ferlinum.

„Þá voru miklar uppsagnir og við Guðmundur Sv. Hermannsson, þá fréttastjóri á mbl.is, unnum eins og skepnur til að halda fréttaflæðinu gangandi. Ég var aðstoðarfréttastjóri og annað hvort okkar var á vakt allan sólarhringinn,“ segir hún meðal annars.

Guðrún lét skólamál, geðheilbrigðismál og málefni barna sig varða í fréttaskrifum og hafa þessir greinaflokkar vakið töluverða athygli. Guðrún segist nú ætla að byrja á því að fara í gott frí, ferðast innanlands og vera með fjölskyldunni. Þá kveðst hún ætla að leyfa sér að sofa út en hún hefur lengi staðið fyrstu vakt á mbl.is sem hefst klukkan 6 á morgnana.