Guð­rún grét eftir ferð í Bónus: „Þú þurftir ekki að gera þetta“

„Ég dáist að þér og þakka fyrir fólk í þessum heimi eins og þig. Þú ert raun­veru­lega ein­hver sem breytir lífi fólks til hins betra,“ segir Guð­rún Brynjólfs­dóttir í færslu á Face­book síð­degis í gær sem vakið hefur mikla at­hygli.

Í færslunni segir Guð­rún frá ó­trú­legri góð­mennsku sem hún upp­lifði í Bónus. Guð­rún rekur at­burða­rásina í færslunni og má segja að hún sýni rétta jóla­andann.

„Hvað hef ég gert til að eiga þetta skilið?,“ spyr Guð­rún í byrjun færslunnar en þessari spurningu varpaði hún fram þegar hún sat úti í bíl eftir Bónus­ferðina, há­grátandi.

„Á­stæðan var ekki sú að ég væri sorg­mædd eða ó­hress, heldur ég hafði upp­lifað góð­verk sem kom heldur betur flatt upp á mig,“ segir Guð­rún og bætir við að hún hafi verið að versla og ung kona verið á undan henni í röðinni.

„Hún var ekki að kaupa neina mat­vöru, heldur gjafa­bréf og bauð mér að vera á undan sér á meðan hún beið eftir þjónustu. Ég þáði það, og renndi vörunum mínum í gegn, nema ég gleymi smotterý og fæ að hlaupa inn í búð að sækja það,“ segir hún.

„Þegar ég kem til baka er verið að af­greiða ungu konuna og vörurnar mínar biðu skannaðar við endann á af­greiðslu­borðinu fyrir utan það sem ég hafði gleymt inni í búð sem átti eftir að skanna. Ég beið því bara og bað svo unga manninn að bæta þessu við það sem ég átti eftir að borga. „Nei, það er búið að borga matinn - konan á undan þér á­kvað að borga þetta líka."

Ó­hætt er að segja að þetta hafi komið flatt upp á Guð­rúnu sem taldi að konan hefði ó­vart verið rukkuð fyrir hennar inn­kaup. „Ó jeminn, hún hefur ó­vart verið rukkuð fyrir minn part,“ segi ég í geðs­hræringu og fannst það skelfi­legt að ó­kunnug kona hefði verið rukkuð fyrir matinn minn.“

Raunin var þó önnur eins og Guð­rún lýsir í færslunni.

„Nei, hún sagði að hún ætlaði að borga þetta" segir ungi drengurinn á kassanum. Ég hleyp því út og leita að konunni, því ég vildi milli­færa á hana. Fann hana ekki í myrkrinu. Miður mín. En svo kemur hún keyrandi - ég veifa henni og bið hana að stoppa - segi við hana: „Heyrðu elsku­leg, ég held að þú hafir verið rukkuð fyrir matinn minn, ég vil fá að borga þér."

Guð­rún segir að konan hafi ekki tekið það í mál. „Nei alls ekki, segir hún. Ég ætlaði að borga þetta.“ Guð­rún segist hafa spurt hvers vegna hún vildi borga fyrir hana og konan svarað af því bara, brosað og óskað henni svo gleði­legra jóla.

„Ég stari á hana undrandi og spyr eins og fá­viti: „Hvað á ég að segja við þig eigin­lega?“

En þá sagði konan: „Segðu bara takk og Gleði­leg jól.“

„Svo brosti hún bara og keyrði í burtu á meðan ég stamaði Takk og eitt­hvað .. sem ég ég skyldi ekki einu sinni sjálf. Hún valdi mig til að gleðja þennan dag. Þetta var ekki af­því að ég gat ekki borgað, heldur bara af­því að hún vildi gleðja. Ég settist inn í bíl og há­grét á meðan ég sagði frá þessu á Insta­gram. Ég vona að hún sjái mögu­lega þessa færslu. Við ungu konuna langar mig að segja: TAKK fyrir mig. Þú þurftir ekki að gera þetta, en gerðir af góð­mennsku og hjarta­gæsku.“

Guð­rún segist virki­lega kunna að meta svona góð­verk og langar hana að gera það sama fyrir ein­hvern annan í jóla­mánuðinum.

„Ein­hvern sem ég þekki ekki neitt, og valin af handa­hófi. Þú elsku stelpa settir eitt­hvað af stað sem vonandi margir taka sér til fyrir­myndar. Ég dáist að þér og þakka fyrir fólk í þessum heimi eins og þig. Þú ert raun­veru­lega ein­hver sem breytir lífi fólks til hins betra. Ég þekki þig ekki neitt - en í mínum huga ertu mikil­væg og dá­sam­lega fal­leg manneskja,“ segir hún og bætir við að myndina hafi hún tekið af sér grátandi í bílnum því hún vissi ekki hvað hún átti að gera eða segja.