Guðni segir fátt ógna ríkisstjórninni: „Ég heyri fáa vera með einhvern annan betri kost“

Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, segir að í raun geti fátt komið í veg fyrir áframhaldandi samstarf ríkisstjórnarflokkanna eftir kosningarnar í haust. Guðni fer yfir stöðuna í íslenskri pólitík í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

„Þegar hálft ár er eftir af kjörtímabili ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er fróðlegt að velta fyrir sér stöðu hinnar breiðu ríkisstjórnar. Ríkisstjórnar sem stigið hefur ölduna í verstu alheimsplágu veraldar frá stríðslokum og eru þá útrásarárin og hrunið talið með. Ég heyri fáa vera með einhvern annan betri kost eða að einhver flokkur sjórnarandstöðunnar sé afgerandi eða boði eitthvað stórbrotið sem hrífur kjósendur.“

Guðni fer svo yfir stöðu ríkisstjórnarflokkanna og bendir á að hjá VG hafi Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir fylgst að eins og gott tvíeyki.

„Katrín með mikinn styrk sem vinsæll forsætisráðherra, og komin í þá gömlu stöðu Framsóknarflokksins að ráða hvort stiginn verður vinstrisnú eða hægrisnú. Katrínu virðist líða vel, enda er þjóðfélagið allt að ríkisvæðast í kórónuplágunni, en hún er heppin og fátt að hennar störfum að finna.“

Guðni vindur sér því næst að sínum gamla flokki, Framsóknarflokknum, og segir að hann búi við öflugt og vinsælt þríeyki: Sigurð Inga, Lilju Alfreðsdóttur og Ásmund Einar Daðason.

„Þau öll eru á toppi vinsældarlista mælinganna ásamt tvíeykinu þeim Katrínu og Svandísi. Sigurður Ingi í vexti sem samgönguráðherra og lím milli stjórnarflokkanna. Lilja alltaf jafn stílhrein og sjálfri sér samkvæm, afgerandi menntamálaráðherra sem bæði kennararar og skólasamfélagið treystir. Ásmundur Einar, fyrsti ráðherrann, sem gerist talsmaður barna og fólks sem hefur ekki átt sér málsvara. Flokkurinn er farinn að uppskera og fylgið stígur upp á við í hverri mælingu.“

Guðni segir svo að hjá Sjálfstæðisflokki tróni Bjarni Benediktsson sem farsæll fjármálaráðherra og með honum tvær ungar konur, Þórdís Kolbrún og Áslaug Arna, sem eru vaxandi og hafa gert það gott.

„Guðlaugur Þór siglir beitivind, fyrsti utanríkisráðherra síðustu 40 ára sem situr heima og er alls ekkert verri en fyrirrennararnir sem eyddu 200 dögum árlega erlendis.“

Guðni segir að stjórnarandstaðan sé ekki í mjög sterkri stöðu og veltir hann fyrir sér stöðu Samfylkingarinnar.

„Hún hefur hraðað sér frá miðjunni yfir á vinstri væng. Logi Einarsson er í samkeppni við Gunnar Smára Egilsson um hvor sé meiri sósialisti og þar logar Logi skærar.“ Hann segir að Viðreisn sé síðan útfall úr Sjálfstæðisflokknum sem gerir út á drauminn um ESB. Staðreyndin sé sú að ESB-aðild er hvorki á dagskrá hér né í Brussel. Þá sé róðurinn byrjaður að þyngjast hjá Miðflokknum og Sigmundur Davíð liggi nú undir feldi og hugsi djúpt hvaða mál munu trompa kosningabaráttuna.

Guðni segir að Katrín verði að hugsa sig tvisvar um hvort hún eigi að halda út í óvissuna með Pírötum, sósíalistum, Flokki fólksins, Viðreisn og Samfylkingunni. „Ég sé ekkert mál sem fellir ríkisstjórnina, ef stjórnarflokkarnir eru klókir,“ segir hann og bætir við að ríkisstjórnin þurfi að fara að öllum tillögum Þórólfs og Kára í sóttvarnarmálum.

Guðni endar pistilinn á þessum orðum:

„Staðan er þessi: Leiðtogar ríkisstjórnarflokkanna búa við traust og eins og nú horfir munu þeir styrkja stöðu sína í kosningunum í september. Þetta staðfestir nýr þjóðarpúls en yfir 60% landsmanna eru ánægð með ríkisstjórnina. En stjórnarflokkarnir mælast með 46% fylgi. Þessi könnun staðfestir að stjórnarflokkarnir eru með þetta, eins og krakkarnir segja.“