Guðni: Miðaldra íslenskir karlar verstir – Hvað myndi Ingólfur eiginlega segja?

„Oft heyrist að börn og unglingar séu íslenskunni verst og séu mest enskuskotin í tali. Þetta er alrangt. Þau læra erlend tungumál strax en stærstur hluti þeirra talar gott móðurmál,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra og formaður Framsóknarflokksins til margra ára, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Guðni hittir oft naglann á höfuðið og myndu einhverjir segja að hann geri það svo sannarlega í grein sinni í dag. Þar skrifar Guðni um íslenska tungu og öll þau erlendu nöfn sem blasa oftar en ekki við hér á landi, til dæmis þegar kemur að fyrirtækjum.

„Ég held að verstu óvinir íslenskunnar séu miðaldra karlar í atvinnurekstri. Fyrirtækjanöfnin eru til vitnis um það. Dauði íslenskunnar blasir við í nafngiftum fyrirtækja og er brennimerkt á stafn og dyr, erlend nöfn og heiti. Þótt mennta- og menningarmálaráðherra Lilja Alfreðsdóttir geri margt til að styrkja stöðu íslenskrar tungu og reyni að bjarga bókaútgáfunni, þá kemur atvinnulífið úr allt annarri átt og vanvirðir grundvallaratriði nafngifta fyrirtækja.“

Guðni bendir á að Alþingi hafi árið 2011 sett ákvæði í stjórnarskrá Íslands um að íslenskan sé þjóðtunga landsins. Í ákvæðinu kemur fram að þjóðtungan sé sameiginlegt mál landsmanna og stjórnvöld skuli tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.

„Er það brot á stjórnarskrá að nota ekki íslensk nöfn á íslensk fyrirtæki? Nöfn þjónustufyrirtækja í Reykjavík eru að verða með þeim hætti að um gæti verið að ræða erlenda borg þegar gengið er um göturnar. Mathöll Ingólfs Arnarsonar eða Hallveigar Fróðadóttur eru hvergi, þrátt fyrir að við vitum allt um landnám þeirra. „Sky Lagoon“ er ný ferðamannaparadís á höfuðborgarsvæðinu sem milljónir manna munu heimsækja á næstu árum, ekkert síður innlendir en erlendir. Bláa lónið er afburðanafn, íslenskt nafn í húð og hár. Skýjalónið eða Skýjaborgin hefði verið kjörið og lýsandi nafn á „Sky Lagoon“, því þar verða gestirnir skýjum ofar af sælu.“

Guðni spyr hvers vegna ekki er gerð krafa um að fyrirtæki beri íslenskt nöfn og hvers vegna lögum um fyrirtækjanöfn sé ekki framfylgt. Hann segir að þetta eigi ekki einungis við um höfuðborgarsvæðið, úti á landi sé víða svipað uppi á teningnum.

„Gott dæmi er „Fontana“, frábært gufubað þar sem Gamla gufan stóð á Laugarvatni. Við eigum eitt elsta mál heimsins. Þú myndir, lesandi góður, skilja Ingólf Arnarson, fyrsta landnemann í Reykjavík, ef þú mættir honum á Arnarhóli. Ingólfur mundi spyrja þig: „Hví þetta rugl í nafngiftum, land þjóð tunga, þrenning sönn og ein,“ myndi hann mæla og bæta við: „Það er íslensk tunga sem hefur mótað land þitt og höfuðborg þess.“ Nema enska sé talmál himnaríkis? Og karlinn farinn að ryðga í tungumálinu.“

Guðni segir að íslenskan sé einstök og hún hafi vakið athygli víða, til dæmis þegar eldgosið í Eyjafjallajökli varð.

„Eyjafjallajökull var skemmtilegasta vekefni sem fréttamenn um víða veröld reyndu að bera fram, besta ókeypis auglýsing allra tíma. Grindvíkingar nefndu nýja hraunið Fagrahraun, rammíslenskt og lýsandi. Hvers vegna leggur ríkið milljarða í móðurmálskennslu þegar misvitrir atvinnurekendur borga ráðgjöfum fyrir að setja útlend nöfn á fyrirtækin, staðsett á Íslandi? Tungumálið er okkar stærsta eign ásamt landinu sjálfu og gerir okkur að þjóð. En kannski er öllum sama um forna frægð móðurmálsins, lands og þjóðar!“