Guðni Már um lífið á Tenerife: „Hér vil ég vera það sem eftir er“

Guðni Már Hennings­son, fyrr­verandi út­varps­maður, er svo á­nægður með lífið á Tenerife að hann hyggst sækja um fasta bú­setu á eyjunni sem er sú stærsta og fjöl­mennasta á Kanarí­eyjum. Guðni Már fluttist til Tenerife vorið 2018.

„Já, ég er bara sestur hér að og ég hef það svo fínt hér. Ég þarf ekki að hafa á­hyggjur af hús­næði eða leigu eða neinu slíku. Mín laun duga fyrir öllu sem ég þarf,“ segir Guðni Már í sam­tali við Hring­braut.

Guðni greindi frá því á Face­book-síðu sinni um helgina að hann ætlaði að sækja um fasta bú­setu á Tenerife. Orð­rétt sagði hann:

„Eftir helgi á ég von á því að ég drífi mig loksins að sækja um fasta bú­setu hérna á Tenerife. Það hefur marga kosti í för með sér og hví skyldi ég ekki nýta mér það? Hér vil ég vera það sem eftir er.“

Guðni er bú­settur í höfuð­borg Tenerife, Santa Cruz de Tenerife, og býr hann í fjögurra her­bergja íbúð.

90 þúsund fyrir 4 herbergja íbúð

„Ég borga fyrir hana 600 evrur. Eftir að gengi krónunnar féll hefur leigan hækkað dá­lítið, ég borga 10 þúsund krónum meira núna en þegar ég kom. En upp­hæðin er sú sama í evrum,“ segir Guðni en 600 evrur eru nánast sléttar 90 þúsund krónur miðað við gengi dagsins í dag.

Það kannast margir við rödd Guðna stjórnaði út­varps­þættinum Nætur­vaktinni á Rás 2 um langt skeið. Þegar hann flutti út á sínum tíma nefndi hann hátt leigu­verð hér á landi sem eina helstu á­stæðuna.

„Leigu­verð á Ís­landi er svo fá­rán­lega hátt að það tekur engu tali. Það kom í veg fyrir á­fram­haldandi bú­setu mína á Ís­landi. Punktur og basta,“ sagði Guðni.

Maturinn miklu ódýrari

Í sam­tali við Hring­braut segir Guðni að varla sé hægt að bera það saman að búa á Ís­landi annars vegar og Tenerife hins vegar. Leigu­verð er eitt og fram­boð af hús­næði er svo annað. „Hér get ég valið um í­búðir og hús – nefndu það. Mat­vara er miklu ó­dýrari, þre­falt ó­dýrari jafn­vel,“ segir hann en dæmi­gerð inn­kaupakarfa sem inni­heldur til dæmis nauta­hakk og kjúk­ling kostar hann um 30 evrur, eða 5.000 krónur.

Þegar Guðni er spurður hvers hann saknar frá Ís­landi nefnir hann dætur sínar fyrst af öllu. „Ég sakna þeirra mest. En fyrir utan það,“ segir Guðni og bætir og svo við eftir langa þögn: „Mér dettur ekkert í hug skal ég segja þér. Stundum langar mig jú í ís­lenskan mat eins og salt­kjöt og hangi­kjöt og ham­borgar­hrygg. Og þegar ég sé myndir af miklum snjó þá hefur mig langað að taka smá rúnt á jeppa,“ segir Guðni en það er ekki mikið um snjó í sólinni á Tenerife.

Gefur út ævisöguna

Guðni situr ekki auðum höndum en þegar hann flutti út setti hann sér það mark­mið að vinna á hverjum einasta degi. Hann hefur staðið við það en á morgnana fer hann á kaffi­hús, fær sér kaffi og situr svo við skriftir í þrjá til fjóra tíma. Svo fer hann heim, hrein­ritar textann og skrifar hann inn á tölvu. Guðni gaf ný­lega út ljóða­bók og þá hefur hann lokið við að skrifa ævi­minningar sínar.

„Hún er í yfir­lestri hjá Karli Th. Birgis­syni og ég stefni á að hún komi út í októ­ber eða nóvember,“ segir Guðni sem ætlar að fylgja bókinni eftir, koma til Ís­lands og lesa upp úr bókinni.