Guðmundur vill að hinir ríku borgi miklu hærri sektir

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, vill að hinir efnameiri verði látnir borga hærri sektir en þeir sem minna hafa á milli handanna. Guðmundur kallaði eftir þessu í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

„Jafnrétti, meðalhóf og réttlæti eru orð sem oft eru notuð hér á Alþingi. Allir eru jafnir fyrir lögum, segir stjórnarskráin, en förum við eftir því,“ spurði Guðmundur sem virtist kalla eftir því að sektir yrðu tekjutengdar að einhverju leyti.

Spurði hann hvort það væri sanngjarnt og réttlátt að sektargreiðslur mismuni fólki eftir því hvað það hefur í laun.

„Hvar er réttlætið og sanngirnin í því að sá sem er á lágmarkslaunum borgi mánaðarlaun sín í sekt, en sá sem er á hámarkslaunum greiðir 5–10% af sínum mánaðarlaun í sekt fyrir sama brot,“ sagði Guðmundur og nefndi máli sínu til stuðnings sektir fyrir sóttvarnarbrot, til dæmis reglur um sóttkví.

Í slíkum tilfellum getur sektin numið frá 50 þúsund krónum upp í 250 þúsund krónur, allt eftir alvarleika brots. Benti Guðmundur á að 250 þúsund krónur væru útborguð mánaðarlaun margra sem eru á lífeyrislaunum frá almannatryggingum. Þá væri mjög stór hópur öryrkja og eldri borgara með enn minni útborgun.

„250 þúsund krónur fyrir þennan hóp er ávísun á svelti og grimmilega refsingu samanborið við þann sem fær útborgað eina milljón á mánuði. Sektir hafa fælingarmátt frá því að brjóta lög og reglur. Er það ekki? Nei, greinilega ekki því þær eru gerðar til að refsa illa þeim fátæku og bjóða þeim ríku að brjóta af sér fimm, tíu, tuttugu sinnum oftar áður en það fer að bitna á fjárhag þeirra.“