Guðmundur vill að 17. júní verði færður lendi hann á helgi

Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segir að aðfangadagur og gamlársdagur ætti að vera frídagur að fullu leyti. Þá ætti að færa 17. júní til mánudags komi hann upp á laugardegi eða sunnudegi.

Guðmundur sagði frá þessu í samtali við RÚV í vikunni en þetta er meðal krafna félagsins í komandi kjarasamningsviðræðum.

Í frétt RÚV kom fram að VM fari fram á prósentuhækkun launa en ekki krónutöluhækkun og segir að áhyggjur fólks af efnahagsástandinu séu skiljanlegar. Þá hefur félagið sett fram kröfu um að svokallaðir rauðir dagar sem lenda á mismunandi vikudögum milli ára verði færðir á virkan dag. Þannig verði þeir alltaf frídagar.

„Sautjándi júní gæti orðið að mánudegi ef hann ber upp á helgi,“ sagði Guðmundur og bætti við að aðfangadagur og gamlársdagur ættu að vera frídagar allan daginn.

„Við teljum að þetta séu dagar fjölskyldna. Það er orðið þannig að allir þeir sem eiga nokkurn möguleika að eiga frí þennan dag eru í fríi. Þess viljum við meina að þeir sem þurfa að vinna eiga að fá vel greitt fyrir það og þetta eigi að teljast hátíðisdagar frá morgni til kvölds,“ segir Guðmundur.