Guðmundur var sagður ólæs með öllu: Óvenjulegt ráð hífði einkunnina úr 4 upp í 9

Guðmundur Ólafsson, lektor í hagfræði við Háskólann á Bifröst, fór óvenjulega leið til að ná tökum á lestri og skrift á sínum yngri árum.

Guðmundur rifjaði upp á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi pistil sem hann skrifaði og birtist í Morgunblaðinu árið 2019. Pistillinn fjallaði meðal annars um les- og skrifblindu en ætla má að tilefni upprifjunarinnar hafi verið heimildarmyndin Lesblinda sem sýnd var í Sjónvarpinu í gærkvöldi og vakti nokkra athygli.

Í pistli sínum sagði Guðmundur:

„Löngum fengu foreldrar mínir þær fréttir úr barnaskólanum að ég væri nánast ólæs og reynt var að kaupa handa mér tímakennslu hjá vænni frú í næstu götu, en þeir tímar höfðu afar takmarkað skemmtigildi.“

Þrátt fyrir þetta las hann reiðinnar ósköp af bókum; ævintýrabækur, Halldór Laxnes og Þúsund og eina nótt svo fátt eitt sé nefnt.

„Á haustin byrjaði svo sama harmsagan, kennarar töldu mig nánast ólæsan og við hafði þá bæst að ég var líka orðinn nánast óskrifandi. Það var því ekki að ófyrirsynju að ég hallaði mér að stærðfræði og var svo heppinn að lenda hjá kennara sem skildi stöðu mína, Ólafi Ólafssyni (Stóra-Rauði). Hann kallaði mig eitt sinn að kennaraborði og kenndi mér að draga þriðjurót á þremur mínútum. Um svipað leyti var ég hjá Tryggva Gíslasyni sem lét mig læra nokkur ljóð eftir Jón Helgason, sem ég kann enn. En niðurstaðan á prófum og að mati kennara var áfram sú að ég væri illa læs og skrifandi.“

Guðmundur sagði að þegar þarna var komið sögu hafi bæst á leslista hans danskar og sænskar bækur sem hann las fyrirhafnarlítið. „Engu að síður voru einkunnir í erlendum málum ekki háar. En stærðfræðin lukkaðist bærilega og var nánast minn bjarghringur.“

Guðmundur rifjar svo upp að allt hafi breyst í Menntaskólanum á Akureyri undir stjórn Gísla Jónssonar íslenskukennara.

„Hann kom til mín og sagði „þínar ritvillur eru einkennilegar, þú skrifar go í stað og.“ Hann ráðlagði að ég læsi ritgerð afturábak, setningu fyrir setningu, þá sæi ég betur villur. Við þetta fór einkunn úr 4 í 9. Vér ólæsu og óskrifandi höfum ekki áhyggjur af PISA og blessuðum kennurunum, lesum áfram það sem er skemmtilegt, fyrr eða síðar fáum við liðsmenn sem munar um.“