Hringbraut skrifar

Guðmundur: „ég meika þetta ekki. ég verð dapur og niðurdreginn“

17. febrúar 2020
09:22
Fréttir & pistlar

Guðmundur Steingrímsson, pistlahöfundur Fréttablaðsins, fjallar um hinar ýmsu kröfugerðir í pistli í blaðinu í dag. Guðmundur setur fram sínar eigin kröfur sem eru þrettán talsins. Guðmundur segir:

„Á þessum kröfugerðartímum er ekki vitlaust fyrir fólk að efna til sjálfsskoðunar og velta fyrir sér út frá eigin brjósti hverjar séu kröfurnar. Hvað vill maður? [...]Hér koma mínar kröfur í fljótu bragði. Þetta þarf að gera, helst núna strax, svo lífsskilyrði mín verði betri.“

1.Að fólk hætti skætingi á samfélagsmiðlum, uppnefnum og fordómum. „Forréttindakonur“, „elíta“, „sófakommi“, „pabbastrákur“. Ég meika þetta ekki. Ég verð dapur og niðurdreginn þegar ég fer inn á suma þræði, og ég vil ekki vera dapur og niðurdreginn. Reglan er þessi: Það sem þú getur ekki sagt við manneskju augliti til auglitis geturðu heldur ekki sagt við hana/um hana á netinu. Svo geri ég þá kröfu að við höfum viðurlögin eins og í slönguspili. Sá sem eys skít á fésinu þarf að fara aftur á byrjunarreit. Engir vinir. Engin læk. Safna þarf öllu aftur.

3.Að ekki sé talað í bíó. Mér finnst að það eigi að vera hægt að skjóta upp sætum þeirra sem tala í bíó.

6.Að fólk hætti að beita félagslegum matarþrýstingi á þorrablótum. Ég er ekki að fara að borða hrútspunga og svoleiðis dót. Ég nenni ekki að fá svipi frá fólki út af því. „Hvað, ætlarðu ekki að fá þér auga?“ „Uuuu, nei.“ Hvað er fólk að skipta sér af því hvað aðrir borða? Einu sinni reyndi ég að fela sviðna löpp undir rófustöppu. Var nappaður og niðurlægður. Það situr í mér.

10.Að heilbrigðiskerfið sé gott og bjóðist öllum. Réttarkerfið líka.

13.Að maður geti farið út að borða án þess að þurfa að ráðfæra sig við bankann. Að lítið bjórglas kosti 1600 krónur er kjánalegt fyrir alla.

Þar hafiði það. Þetta hefur auðvitað enga þýðingu. Viðsemjandi minn er enginn og tilhugsunin um að ég fari í verkfall er í besta falli hlægileg. En samt. Það er mikilvægt að vita nokkurn veginn hvað maður vill. Ég hvet aðra til að setja saman sína lista. Og berja í borðið.

Hér má lesa grein Guðmundar í heild sinni og öll hin atriðin.