Guð­mundur: Svona er staðan úti á landi – „Án þeirra væru þorpin horfin“

„Á Vest­fjörðum, þar sem ég þekki til, hefur heilu sam­fé­lögunum verið haldið gangandi af fólki sem fæddist utan Ís­lands. Það er stað­reynd. Án þeirra væru þorpin horfin. Kross­viðs­plötur fyrir gluggum í sorg­legum drauga­bæjum.“

Þetta segir Guð­mundur Gunnars­son, fyrr­verandi bæjar­stjóri á Ísa­firði, í færslu á Twitter-síðu sinni. Guð­mundur hefur látið sig mál­efni egypsku flótta­fjöl­skyldunnar varða að undan­förnu, en eins og kunnugt er fékk fjöl­skyldan loks dvalar­leyfi af mann­úðar­á­stæðum í síðustu viku.

Guð­mundur birtir nokkur tíst þar sem hann tjáir sig meðal annars um stefnu ís­lenskra yfir­valda þegar kemur að flótta­fólki. Setur hann stefnuna í sam­hengi við stöðuna sem finna má víða á lands­byggðinni.

„Ég fæ það ekki til að ganga upp hvernig við getum horft á þorp leggjast í eyði um allt land vegna fá­mennis og fólks­flótta en á sama tíma staðið í pontu er­lendis og sagt að við séum ekki af­lögu­fær eða til­búin til að taka við fólki á þeim grund­velli að það sé á flótta,“ segir Guð­mundur og bætir við að eftir ára­tugi af lamandi fólks­fækkun skipti hver einasta fjöl­skylda máli.

„Allt stendur og fellur með fólkinu. Örfá svæði á Ís­landi eru sjálf­bær. Hin eru að kafna,“ segir hann. Hann segir að staðan víða sé þannig að ef barna­fjöl­skylda flytur í þorp sé hrein­lega slegið upp veislu. „Ef sama fjöl­skylda flytur frá Egypta­landi þá kaf­færum við henni í reglufargani. Höldum í al­vörunni að þetta snúist um náð og miskunn.“

Guð­mundur bendir á að það bráð­vanti vinnandi hendur um allt land, nýjar hug­myndir, ferska sýn, skríkjandi börn, fólk í kórinn, heita pottinn og á kaffi­stofuna. „Það er svo mikið pláss í plássunum að að sveita­stjórar garga á fjall­stoppum. Eftir fólki. Út­svars­greið­endum. Súr­efni.“

Hann segir að fyrir vikið bítist þorpin inn­byrðis um fólk, reiti fjaðrirnar hvert af öðru og rífast um hverjar sjö sálir. „Í lands­hlutum sem gætu hæg­lega rúmað 70 þúsund sálir. Þetta er stóra þver­sögnin um plássið í plássunum. Við eigum nefni­lega ekki nóg með okkur sjálf þótt sumum finnist það.“

Guð­mundur þekkir vel til á Vest­fjörðum enda upp­alinn í Bolungar­vík og auk þess gegndi hann starfi bæjar­stjóra Ísa­fjarðar­bæjar í tæp tvö ár. Hann segir að á Vest­fjörðum hafi heilu sam­fé­lögunum verið haldið uppi af fólki sem fæddist utan Ís­lands. Það sé stað­reynd sem ekki er hægt að horfa fram hjá.

„Hegðun ráða­manna í um­ræðunni er jafnan pín­leg og mátt­farin. Stíga stoltir fram á tylli­dögum og hampa fjall­konu af er­lendum upp­runa en hverfa svo undir lampa­skerma þegar henni er sparkað úr landi. Skortir kjark til að ræða heildar­myndina þrátt fyrir aug­ljósan efna­hags­legan á­bata.“

Guð­mundur segir að auð­vitað þurfi að vera reglur, hann hafi fullan skilning á því. „En er ekki rétt að við, sem af­kom­endur fólks á flótta, veltum fyrir okkur stöðu okkar og tæki­færum sem felast í fólks­fjölgun og fjöl­breytni. Setjum fleiri breytur inn í gjald­þrota um­ræðu um inn­flytj­endur. Það er bein­línis ó­rök­rétt að láta ótta við allt og alla, sem eru ekki ná­kvæm­lega eins og þeir ör­fáu sem fyrir eru, stjórna allri um­ræðu,“ segir Guð­mundur sem endar færslu­röðina á þessum orðum:

„Ís­land er vand­ræða­lega undir­mannað.“