Guð­mundur Stein­gríms: „Bar­áttan er dauf“

Guð­mundur Stein­gríms­son, fyrr­verandi al­þingis­maður og for­maður Bjartrar fram­tíðar segir kosninga­bar­áttuna vegna Al­þingis­kosninga sem eru á næsta leyti heldur daufa og ekki að ná flugi.

Þetta kemur fram í pistli Guð­mundar í Frétta­blaðinu í dag. Þar fer Guð­mundur yfir þing­mál liðins vetrar og segir blasa við að stjórn­málin séu múl­bundin í­halds­seminni. Hann segir að sumum kunni að finnst það fínt en spyr hvort það sé gott fyrir lýð­ræðið?

Guð­mundur segir að sjálf­sögðu séu bar­áttu­mál til staðar fyrir þessar kosningar. „Það er líka klárt fólk á sviðinu og mann­valið hið fínasta, en samt sýnist mér þetta blasa við: Bar­áttan er dauf. Hún er ekki að ná flugi. Það er auð­velt að verða ringlaður. Um hvað er kosið? Hvar liggja á­taka­línurnar? Á hvaða hátt skiptir at­kvæðið máli?“

Hann segir heilaga skyldu þegns í lýð­ræðs­ríki að kjósa og það ætli hann að gera. „En hitt sýnist mér þó einnig vera morgun­ljóst þegar ég horfi yfir sviðið: Mér finnst ég ekki geta haldið því fram að ef ein­hver einn flokkur landi sigri muni Ís­land breytast mikið í kjöl­farið. Að þessu leyti upp­lifi ég kosningarnar ekki sem dramatískar.“

Ekkert um­deilt mál komst í gegnum þingið

Þá lýsir Guð­mundur því að hann hafi þróað með sér kenningu um ís­lensk stjórn­mál.

„Í stuttu máli er hún sú, að vegna á­kveðins fyrir­komu­lags í skipu­lagi þingsins - hvernig þing­sköpum er háttað - er nánast ó­mögu­legt fyrir rót­tæk öfl að koma málum sínum í gegn, jafn­vel þótt þau njóti meiri­hluta. Önnur leið til að segja þetta er ein­fald­lega þessi: Vegna galla í þing­sköpum geta tveir þing­menn, hvað þá fleiri, stoppað þau mál sem þeim sýnist.“

Hann segist hafa skoðað síðasta þing­vetur og hvaða mál þar komust í gegn. „Þetta blasir við: Ekkert um­deilt mál, sem djúp­stæður á­greiningur er um, fór í gegnum þingið. Núll. Raunar virðast af­skap­lega fá slík mál hafa verið lögð fram,“ segir Guð­mundur.

„Stað­reyndin er sú að um­deild mál komust hvorki lönd né strönd. Mér sýnist ráð­herrar, sem starfa í meiri­hluta, hafi lagt fram átta slík mál. Meira frjáls­ræði í leigu­bíla­akstri, há­lendis­þjóð­garður, rýmkun í á­fengis­sölu, frjáls­ræði í manna­nöfnum, af­glæpa­væðing neyslu­skammta, breytingar á stjórnar­skrá, aukin réttindi inn­flytj­enda og bætt þjónusta við flótta­fólk eru allt mál sem ráð­herrar máttu horfa á fjara út í sandinn.

Hvað yrði þá um rót­tækari mál? Stjórn­málin eru múl­bundin í­halds­seminni. Sumum kann að finnast það fínt, en er það gott fyrir lýð­ræðið?“