Guðmundur í brimi hjá jóni g.; gvendur jaki var besti vinur okkar

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir að nafni sinn Guðmundur J. Guðmundsson, jafnan nefndur Gvendur jaki, einn helsti verkalýðsforingi síðustu aldar, hafi verið besti vinur unglinganna á Rifi. „Hann setti yfirvinnubann á lestun skipa í Reykjavík þannig að á föstudagskvöldum fóru skipin frá Reykjavík og Rif var fyrsta höfnin þannig að þá fengum við alltaf vinnu allar helgar allan veturinn og fengum vel greitt fyrir enda á yfirvinnutaxta allan tímann,“ segir Guðmundur í viðtalinu við Jón G.

UM SÖLU GILDIS LÍFEYRISSJÓÐS Á HLUTNUM Í BRIMI TIL SKAGFIRÐINGA

Þegar Guðmundur er spurður að því hvers vegna hann hafi ekki keypt eignarhlut Gildis lífeyrissjóðs í Brimi fyrr á þessu ári, svarar hann því til að hann hafi einfaldlega ekki vitað að til stæði að selja þennan hlut . „Við vissum ekki að Gildi ætlaði að selja. Í minni einföldu trú hélt ég að lífeyrissjóðirnir væru langtímafjárfestar.“

Þessi viðskipti urðu mjög sérstakur kapall því Gildi lífeyrissjóður seldi Fisk Seafood hlutinn og fékk greitt með eignarhlut Skagfirðinga í Högum. Fisk bætti nokkrum dögum síðar við sig hlut í Brimi og komst upp í 10% eignarhlut sem Guðmundur keypti síðan. Fisk Seafood, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, hagnaðist um rúman 1 milljarð á þessu viðskiptum.