Guð­mundur hjólaði í Ölmu en fékk svo sím­tal: „Segið svo að flott for­ystu­fólk sé ekki að hlusta“

„Alma D. Möller hringdi rétt í þessu. Við áttum gott spjall og hún út­skýrði málið frá sinni hlið,“ segir Guð­mundur Gunnars­son, fyrr­verandi bæjar­stjóri á Ísa­firði.

Guð­mundur var ó­sáttur við svör Ölmu á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna­deildar ríkis­lög­reglu­stjóra sem haldinn var í gær. Þar var hún meðal annars spurð út í tækja­kost Heil­brigðis­stofnunar Vest­fjarða.

Guð­mundur sagði í pistli sem hann birti á Face­book í gær­kvöldi að land­læknir hefði svarað því til að söfnun vest­firskra íbúa fyrir öndunar­vélum væri lofs­vert fram­tak en málið væri ekki svo ein­falt. Mestu skipti að kunna á tækin.

Eins og atriði úr Skaupinu

„Í mínum huga lýsir þetta svar vandanum, ekki lausninni. Fólk á Ísa­firði getur alveg lært á þessi tæki eins og aðrir. Hér er veitt af­bragðs þjónusta og mann­auðurinn gífur­legur. Vandinn er að þjálfun getur ekki farið fram ef engin eru tækin. Segir sig sjálft. Þið fyrir­gefið en þetta til­svar minnir mig á Magnús og Eyjólf og út­listanir þeirra bræðra á því af hverju síminn - sem þeir höfðu aldrei átt - hringdi aldrei,“ sagði Guð­mundur og vísaði í frægt at­riði úr Ára­móta­skaupinu frá árinu 1985.

Guð­mundur benti svo á að Heil­brigðis­stofnun Vest­fjarða ætti fyrst og fremst að hlúa að sjúk­lingum á meðan beðið er eftir flutningi suður. Það hafi komið fram í máli Ölmu og sé rétt. Hann veltir þó fyrir sér – eins og fleiri Vest­firðingar – hversu oft hafi verið hægt að lenda flug­vél á Ísa­firði það sem af er vetri. „Eru dagar færðar fleiri en dagar ó­færðar? Mig grunar ekki. Án gríns.“

Síminn hringdi í morgun

Hann bendir á að þegar snjó­flóðin féllu í janúar hafi þyrla ekki einu sinni getað lent á svæðinu, land­leiðin hafi einnig verið klos­só­fær, líka á milli þorpa, og slíkt sé ekkert eins­dæmi. „Í vetur hafa slíkar að­stæður skapast trekk í trekk. Ætlar ein­hver að segja mér að þetta þarfnist ekki endur­mats?“

Guð­mundur endaði færsluna svo á þessum orðum:

„Í nafni sam­hengis vil ég benda á að á meðan hjarta­hlýir í­búar á höfuð­borgar­svæðinu safna fyrir spjald­tölvum fyrir sjúk­linga þá safna Vest­firðingar fyrir lækninga­tækjum. Fyrir okkur snýst þetta ekki um það sem er næs að eiga, heldur það sem er bráð­nauð­syn­legt að eiga. Til að vega upp fjár­svelt kerfi. Enn og aftur. Við eigum ekki að sætta okkur við þetta ramm­skakka við­horf stjórn­valda til heil­brigðis­þjónustu á lands­byggðinni.“

Guð­mundur skrifaði aðra færslu nú í há­deginu þar sem hann segir að Alma hafi hringt í hann.

„Við áttum gott spjall og hún út­skýrði málið frá sinni hlið. Hún óskaði eftir því að fá að vera með í ráðum þegar send eru erindi til ráð­herra um tækja­skort og að­búnað Hvest. Það ætti að vera auð­sótt. Ég veit að það er hægt að senda henni mý­mörg af­rit af erindum frá stofnuninni. Segið svo að flott for­ystu­fólk sé ekki að hlusta. Jafn­vel þótt kallið berist úr fjarska. Vel gert, Alma.“