Guðmundur Franklín efast um niðurstöður Þjóðarpúls Gallup

Guðmundur Franklín Jónsson, forsetaframbjóðandi, hefur efasemdir um niðurstöður Þjóðarpúls Gallup sem greint var fyrst frá í kvöldfréttum RÚVí kvöld. Um er að ræða fyrstu formlegu könnunina sem gerð er á forsetaframbjóðendunum. Mælist Guðni Th. Jóhannesson með 90,4% fylgi en Guðmundur Franklín Jónsson með 9,6%. Nýtur Guðmundur mests stuðnings meðal eldri kjósenda og stuðningsmanna Miðflokksins, hefur hann einnig meiri stuðning meðal karla en kvenna.

Guðmundur Franklín hefur mælst með mun meira fylgi í könnunum Bylgjunnar, Útvarps Sögu og DV, en þar er ekki notast við viðurkenndar aðferðir á borð við handahófskennt val við úrtak.

Guðmundur hefur þó litlar áhyggjur og segir á Facebook:

„Nei sko... RÚV var að gera könnun og ákvað að gefa mér 10% þegar ég er að mælast með um 45% alls staðar annars staðar.

Það er ekki skrýtið að Efstaleitið skjálfi þegar ég hef lýst því ítrekað yfir að ég vilji taka þessa ESB áróðursstofnun af auglýsingamarkaði.“

Stuðningsmenn hans taka undir þetta og kalla nokkrir eftir því að stofnuninni verði lokað. Þar á meðal Hildur Sif Thorarensen, kosningastjóri Guðmundar, en hún telur úrtakið í könnuninni handvalið.

Minnir hann svo á að Halla Tómasdóttir, sem hlaut 27,9% atkvæða í kosningunum 2016 var ekki með svo mikið fylgi í byrjun sumars.

„Ég minni á að Halla var að "mælast" með 7,5% í RÚV-gallup könnuninni á sama degi síðast og við munum nú öll hvernig það fór. Áfram til sigurs!“