Guðmundur Felix vinkar og sýnir nýju hendurnar: „Betri með hverjum deginum“

Guð­mundur Felix Grétars­son deilir bataferli sínum með fylgjendum á Facebook í dag. „Eins og þið sjáið þá stend ég og ég verð betri og betri með hverjum deginum,“ sagði Guðmundur brosandi.

Hann sýndi þvínæst hvernig handleggirnir væru að gróa og benti á að saumarnir væru mun betri að framan en að aftan. „Þetta er smá Frankenstein hérna, en þettta mun allt verða betra með tímanum.“ Með tímanum verði einnig hægt að fá lýtalækni til að lappa upp á svæðið í kringum saumana.

Guðmundur þarf að notast við ólar til að halda uppi handleggjunum þar sem hann hefur enga tilfinningu í höndunum. Ef ekki væri fyrir ólarnar myndu þungu handleggirnir hanga á saumunum einum saman.

Guðmundur bendir einnig á að húðina á nýju höndunum sé mjög þurr en það sé vegna þess að húðin breytist yfirleitt þegar um ígræðslur er að ræða. „Þarna undir er mjög mjúk og ný húð.“

Fullkominn tími fyrir nýtt líf

Guðmundur greinir síðan frá því að endurhæfingu hans hafi verið frestað. Til stendur að hann hefði endurhæfingu fyrsta mars en ekki núna á mánudaginn eins og upphaflega stóð til.

Þrátt fyrir það er Guðmundur ansi hress og fór hann í fyrsta skipti út eftir aðgerðina í dag og fékk loks að njóta vorsins. „Þetta er fullkominn tími til að hefja nýja lífið og endurhæfinguna,“ segir hann brosandi og vinkar áhorfendum.

„Það eru engin frekari vandamál og sársaukin er að mestu leyti farinn.“ Hann þurfi ekki lengur að taka mikið af verkjalyfjum. „Ég verð svolítið þreyttur í öxlunum en það er nokkurn veginn allt og sumt.“