Guð­mundur er þrjá daga að jafna sig: „Hversu mikill tími fer í vitleysu út af ókurteisi?“

„Mín reynsla er sú, að ef ég verð reiður út af dóna­skap annarra í minn garð eða í garð minna nánustu, á netinu eða annars staðar, tekur það mig um það bil þrjá daga að jafna mig,“ segir Guð­mundur Stein­gríms­son, fyrr­verandi þing­maður og heim­spekingur, í grein sinni í Frétta­blaðinu í dag.

Í grein sinni segir Guð­mundur að mann­kynið þurfi að fara að sýna að því sé ekki sama um náungann.

Guð­mundur byrjar á að segja frá býsna á­huga­verðri upp­finningu í Kali­forníu þar sem for­ritarar hafa náð að hanna mjög full­komna gervi­greind. Um er að ræða gervi­greindar­for­rit sem kallast GPT-3 og getur það gert alls­konar hluti; það yrkir ljóð, getur skrifað tölvu­for­rit og sett færslur á sam­fé­lags­miðla. Bendir Guð­mundur á að for­ritið læri sjálft sem þýðir að það skannar netið og nemur allt sem þar fer fram og byggir greind sína á þeim lær­dómi.

Guð­mundur segir að sá hvim­leiði galli sé á for­ritinu að í sam­skiptum sínum við mann­eskjur þykir það heldur dóna­legt. „Þess eru dæmi að fólk verði al­gjör­lega miður sín. Til­hneigingar til ras­isma eru all­nokkrar. Nær­gætni skortir. Greina má slíkan lyga­þvætting og alls kyns for­dóma í tungu­taki for­ritsins, að fólk er jafn­vel slegið á eftir.“

Guð­mundur segir að á­stæðan sé vita­skuld sú að for­ritið byggir orða­val sitt á því sem það hefur safnað saman af netinu. Og endur­speglar því orð­ræðu mann­kyns.

„Kannski er hér visst ljóð­rænt rétt­læti á ferðinni fyrir hið haturs­fulla mann­kyn. Tals­máti GPT-3 er auð­vitað mátu­legur á okkur. Spegli er brugðið upp. Svona erum við þá al­mennt ömur­leg. Spurningin í þeim kring­um­stæðum blasir við í fram­haldinu: Er þetta eitt­hvað sem mikil­vægt er að breyta? Er vandi jarðar aðal­lega sam­skipta­vandi?“

Guð­mundur veltir fyrir sér hversu mikla orku mann­kynið notar í skæting, fals og ill­deilur á árs­grund­velli. „Hversu mikla orku nota Ís­lendingar í fingra­bendingar og hnútu­köst? Þegar ein­hver segir við ein­hvern á kommenta­kerfi net­miðla að við­komandi eigi ekki skilið að lifa vegna skoðana sinna, hvað gerist við slík sam­skipti?,“ spyr Guð­mundur og nefnir svo eigin reynslu.

„Mín reynsla er sú, að ef ég verð reiður út af dóna­skap annarra í minn garð eða í garð minna nánustu, á netinu eða annars staðar, tekur það mig um það bil þrjá daga að jafna mig. Í þessa þrjá daga er ég að tuldra mögu­legan dóna­skap á móti í ein­veru minni, flyt langa reiði­lestra einn í bílnum — í­mynda mér hvernig ég ætli að láta gerpið finna fyrir því — og svo tekur á­líka mikla orku að birta ekki ein­hvern slíkan ó­fögnuð á móti — og það tekur á — og ég sperri and­lits­vöðvana ó­eðli­lega mikið í illsku minni og er al­mennt tens. Missi jafn­vel svefn. Ó­hemju­orka fer í þetta. Hin leiðin er að koma sér upp skráp eða til­einka sér við­varandi truntu­skap í for­varnar­skyni, en það þarfnast líka mikillar orku. Lykil­at­riðið er það, að skætingur annarra er tundur­skeyti inn í líf fólks. Í­myndið ykkur, svo ég noti tungu­tak sem kannski þarf að nota svo al­var­leiki málsins sé viður­kenndur, hvað svona lagað þýðir fyrir fram­legð á vinnu­markaði? Hversu mikill tími fer í vit­leysu út af ó­kur­teisi?“

Guð­mundur segist hallast að því að CPT-3 sé að sýna okkur að lík­lega sé þetta stærsta verk­efni mann­kyns: Að koma betur fram við hvert annað og sýna væntum­þykju og skilning.

„Lík­lega náum við aldrei að minnka kol­tví­sýring í and­rúms­loftinu eða út­rýma fá­tækt nema við gerum þetta fyrst. Sýnum að okkur sé ekki sama um náungann. Í öllu falli væri gaman ef mann­kynið, sem nú er orðið býsna sam­heldið í heims­far­aldrinum— far­aldurinn hefur eigin­lega breytt ver­öldinni í heims­þorp — myndi gera þetta að til­raun sinni til næstu ára. Að tala fal­lega hvert til annars, þó ekki væri nema bara til að sjá svo hvort CPT-3 breyti tals­máta sínum í kjöl­farið og fari að sýna al­menni­lega manna­siði.“