Guð­mundur: Einar stóð sig vel í Kast­ljósi í gær

„Sé að margt fólk er ó­á­nægt með Einar Þor­steins­son og spurningar hans í Kast­ljósinu í gær. Ég er ekki sam­mála því. Hann var að mínu mati að sinna sinni vinnu, gegna sínu hlut­verki,“ segir Guð­mundur Andri Thors­son, þing­maður og rit­höfundur.

Guð­mundur kemur fjöl­miðla­manninum Einari Þor­steins­syni til varnar á Face­book-síðu sinni en Einar – og raunar fjöl­miðlar í heild – hafa verið gagn­rýndir vegna um­ræðunnar um hóp­smit á Landa­koti. Einar ræddi við Pál Matthías­son, for­stjóra Land­spítalans, í Kast­ljósi í gær­kvöldi og þótti nokkuð bein­skeyttur.

Hjúkrunar­fræðingurinn Elín Tryggva­dóttir skrifaði færslu á Face­book í gær­kvöldi sem vakti mikla at­hygli. Sagði hún að ekki hafi verið nóg að „steikja for­stjóra“ Land­spítalans á upp­lýsinga­fundinum í gær heldur var hann einnig „kola­grillaður“ í Kast­ljósi.

Sjá einnig: Elín segir hingað og ekki lengra: „Með grill­veislum eins og þessum er traustið brotið niður“

Þessu er Guð­mundur Andri ó­sam­mála og bendir hann á að ó­á­nægja hafi ríkt meðal að­stand­enda sjúk­linga á Landa­koti. Þær spurningar sem þeir hafa haft þurfi að viðra og ræða, jafn­vel þó ó­þægi­legar séu.

„Þetta fannst mér Einar gera af kurteisi og festu. Páll Matthías­son stóð sig mjög vel í hlut­verki sínu við að vera í for­svari fyrir þessa stofnun, og hafi það verið al­menn til­finning á­horf­enda að loknum þætti, að starfs­fólk spítalans hafi unnið vel og gert allt sem í þess valdi stóð – eins og ég tel raunar að sé raunin – þá var þetta góð um­ræða og til þess fallin að hreinsa and­rúms­loftið.“

Hér má sjá viðtalið umtalaða í gærkvöldi.