Guð­mundur: „Ég þarf á þessari vinnu að halda“ – Lifir ekki á 300 þúsund krónum sem bæjar­full­trúi

„Ég viður­kenni alveg að ég þarf á þessari vinnu að halda, ég hef ekkert aðra vinnu og lifi ekki á 300 þúsund kalli sem bæjar­full­trúi,“ segir Guð­mundur Gísli Geir­dal, sjó­maður og bæjar­full­trúi Sjálf­stæðis­flokksins, í Kópa­vogi í sam­tali við Frétta­blaðið í dag.

Nokkur styr hefur staðið um mætingu Guð­mundar á bæjar­stjórnar­fundi í haust og hefur Sigur­björg Erla Egils­dóttir, bæjar­full­trúi Pírata, meðal annars gagn­rýnt fjar­veru hans á fundum. Þannig hafi hann að­eins mætt á einn fund af sjö síðan í júní og ætti frekar að biðjast lausnar ef hann getur ekki mætt á fundi.

Sam­hliða störfum sem bæjar­full­trúi er Guð­mundur sjó­maður og segir hann við Frétta­blaðið í dag að engin á­stæða sé til að biðjast lausnar.

„Það hitti svo­leiðis á í haust að ég þurfti að vera á sjó þegar það voru fundir, ég kallaði inn á­gætis vara­mann. Ég myndi aldrei sleppa fundi til að taka frí,“ segir hann og bætir við að þegar hann fór í fram­boð hafi hann boðið sig fram sem sjó­maður. „Það vissu það allir að ég ætlaði ekki að hætta í þeirri vinnu til að gera bæjar­full­trúa­starfið að aðal­starfi.“

Guð­mundur siglir frá Þórs­höfn og segir að hann sé í góðu sam­bandi við aðra fulltrúa í bæjarstjórn. Eðli málsins sam­kvæmt geti hann ekki verið á fjar­fundum vegna stopuls net­sam­bands úti á sjó. Guð­mundur segir að hann fari senni­lega ekki aftur á sjó fyrr en næsta vor og því séu þessir haust­mánuðir mikil­vægir.

„Ef allir eru sam­mála því að það megi ekki sleppa fundi vegna vinnu þá eru skila­boðin þau að þú getir ekki fengið sjó­mann í þetta starf.“