Guðmundur Andri sleginn óhug: „Mér finnst mikilvægt að fá að vita meira um þessa menn“

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður, segir að umræðan um yfirvofandi hryðjuverkaógn á Íslandi eigi að snúa um hætturnar af hatursorðræðu og öfgahyggju frekar en vopnaburð lögreglu og auknar heimildir til hlerana og eftirlits.

Eins og alþjóð veit voru fjórir menn handteknir í vikunni grunaðir um að hafa hryðjuverk í skipulagningu hér á landi. Eru mennirnir sagðir hafa beint sjónum sínum að Alþingi og lögreglunni, en samkvæmt frétt Morgunblaðsins í dag voru þeir til að mynda áhugasamir um árshátíð lögreglumanna sem til stendur að halda í næstu viku.

Guðmundur Andri gerir málið að umtalsefni á Facebook-síðu sinni þar sem hann rifjar upp að ógn af þessu tagi hér á landi sé ekki alveg ný af nálinni. Mikilvægt sé þó að umræðan fari í réttan farveg.

„Skotið var á bíl borgarstjóra fyrir nokkrum árum og líka hafðir uppi svipaðir ógnunartilburðir gagnvart nokkrum stjórnmálaflokkum. Ekki var aðhafst af hálfu lögreglu þá. Ekki heldur þegar sprengja var skilin eftir við stjórnarráðið og ætluð Jóhönnu Sigurðardóttur þáverandi forsætisráðherra. Þannig að ekki er þetta alveg nýtt. En svona áform, eins og rætt hefur verið um, eru auðvitað af slíkri stærð að það setur að manni óhug. Mér finnst mikilvægt að fá að vita meira um þessa menn og áform þeirra og þankagang. Mér finnst að umræðan eigi að snúast um hætturnar af hatursorðræðu og öfgahyggju frekar en vopnaburð lögreglu og auknar heimildir til hlerana og eftirlits.“