Guðfinna farin að vorkenna körlum: Segir að konur séu miklu grimmari en þeir

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, lögmaður og fyrrverandi borgarfulltrúi, segist vera farin að vorkenna karlmönnum.

Guðfinna gerði viðtal RÚV við Arnar Svein Geirsson, formann Leikmannafélags Íslands, að umtalsefni á Facebook-síðu sinni. Arnar Sveinn sagði um helgina að neikvætt tal um konur viðgangist í öllum karlaklefum knattspyrnumanna, en Arnar Sveinn er sjálfur leikmaður Fylkis í efstu deild í fótbolta.

Áður hafði Garðar Gunnlaugsson, fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta, sagt í viðtali í Lestinni á Rás 1 að mjög hallaði á konur í umræðum í karlaklefum. Nýja MeToo-byltingin hefur varla farið framhjá nokkrum en fjöldi kvenna hefur stigið fram undanfarna daga og lýst oft á tíðum grófu ofbeldi karlmanna. Hafa karlar verið hvattir til að taka þátt í umræðunni og sýna ábyrgð.

Guðfinna gefur í raun lítið fyrir þessa umræðu ef marka má færslu hennar.

„Sorrý ég er farin að vorkenna karlmönnum, konur tala líka illa um karlmenn og kalla þá fávita og aumingja enda vita það allir að konur eru miklu grimmari en karlmenn. Bara get ekki þessari fórnarlambs- og meðvirknisumræðu. Það er miklu verri umræða í saumaklúbbunum. Svo virðist sem valdefling kvenna snúist um að taka af sér rassa- og nærfatamyndir og birta á Insta. Úff.“

Þorlákur Árnason, fyrrverandi þjálfari í efstu deild og yfirmaður knattspyrnumála hjá knattspyrnusambandi Hong Kong, blandar sér í umræðuna og tekur að hluta til undir með Guðfinnu. Hann tekur þó fram að þó konur tali líka illa um karla bæti það ekki fyrir glataða búningsklefamenningu hjá körlum.