Guðdómlegt Tiramisu í nýjustu bók Berglindar Hreiðars, Saumaklúbburinn

Einn af okkar vinsælasta og ástsælasta matar- og sælkerabloggara landsins, Berglind Hreiðarsdóttir, var að gefa út sína þriðju bók, Saumaklúbburinn. Berglind hefur verið með heimasíðuna www.gotteri.is síðan árið 2012. Hún er bloggsíða með mat, ævintýrum og allt þar á milli.

„Ég skrifaði Veislubókina í fyrra ásamt því að vera ein af sex matarbloggurum með uppskriftir í Vinsælustu uppskriftir vinsælla matarbloggara og þannig kviknaði áhuginn á að gera aðra bók,“ segir Berglind og var ekki lengi að framkvæma verkið.

Þú varst að gefa út þriðju bókina þína á dögunum sem ber heitið Saumaklúbburinn, segðu okkur aðeins frá tilurð hennar?
„Í upphafi árs kom þessi hugmynd upp í kollinn á mér og ég gat ekki hætt að sjá þessa bók fyrir mér. Ég ákvað því að fylgja hjartanu og settist niður, skrifaði niður hugmyndir og drög að verkáætlun og hófst síðan handa. Ætli ég hafi ekki útbúið og þróað eins og 90 nýjar uppskriftir á „Covid tímabilinu“ í vor með allar stelpurnar mínar heima sökum ástandsins svo þið getið rétt ímyndað ykkur fjörið á bænum,“segir Berglind um bókina sem er komin í vefverslun á www.gotteri.is og í helstu verslanir Pennans og í Fjarðarkaup í Hafnarfirði.

Af hverju Saumaklúbburinn?
„Þetta var nafn sem kom fyrst upp í hugann. Ég vildi gera bók með alls kyns uppskriftum sem hentuðu fyrir gæðastundir og oft eru slíkar stundir í saumaklúbbum svo það fór þannig að nafnið festist við bókina. Uppskriftirnar í henni eiga þó klárlega heima víðar en í saumaklúbbum. Þetta eru fjölbreyttar og afar gómsætar uppskriftir fyrir hin ýmsu tilefni, já eða bara hversdagsleikann.“

Hvar færðu innblásturinn og hugmyndirnar af uppskriftunum?
„Héðan og þaðan. Mér finnst skemmtilegast að fá uppskriftir frá fólki í kringum mig og geta sagt smá sögu með þeim þegar ég set þær á bloggið. Sumar koma bara til mín og ég teikna alveg upp, öðrum fæ ég hugmyndir af á netinu svo það er bara allur gangur á því. Eina sem ég veit að ég fæ allt of mikið af hugmyndum og vildi stundum ég hefði tíu hendur og meiri tíma í eldhúsinu,“ segir Berglind og skelli upp úr.

Segðu okkur aðeins frá ástríðu þinni í matargerð og bakstri?
„Ég hef elskað að galdra fram eitthvað gómsætt í eldhúsinu síðan ég man eftir mér. Frá hverjum ég fæ það veit ég ekki en það sem ég veit er að ég elska að gleðja fólkið í kringum mig með góðum veitingum og hef endalausa nennu í eldhúsbrasi.“

Líður nokkur dagur sem þú ert ekki að framkvæma eitthvað í eldhúsinu?
„Já, já, það gerist alveg þó það gerist ekki oft. Stundum er alveg fínt að taka sér smá frí en þegar ég geri það er ég alveg farin að iða í skinninu eftir nokkra daga.“

Hvað er það sem er mikilvægast að eiga í eldhúsinu, algjörlega ómissandi?
„Ég hef nú einhvers staðar svarað þessari spurningu áður en það er án efa Kitchen Aid hrærivélin mín. Hún er mín besta vinnukona og ég veit ekki hvar ég væri án hennar oft á tíðum.“

Ertu sjálf í mörgum saumaklúbbum?
„Nei, veistu ég er ekki í neinum föstum saumaklúbbi. Við hjónin erum hins vegar í nokkrum vinamatarklúbbum ef svo má að orði komast og réttirnir í bókinni eiga einmitt jafnvel við í slíkum hittingum.“

Átt þú þinn uppáhalds rétt eða rétti sem leynist í nýju bókinni þinni?
„Oh, það er alltaf svo erfitt að svara þessari en ég á klárlega nokkrar uppáhalds í nýju bókinni, enda er hún stútfull af góðum uppskriftum. Vinkonur mínar gerðu grín að mér og sögðu að þetta væri eflaust efni í 2-3 bækur. Ég á það hins vegar til að fara svolítið framúr sjálfri mér í verkefnum og ætli það hafi ekki bara gerst einmitt þarna líka.“

Ertu til í að svipta hulunni af þínum uppáhaldsrétti og leyfa lesendum að njóta?

„Það eru örfáar uppskriftir í bókinni sem hafa komið á blogginu, einmitt af því þær eru svo mikið uppáhalds að þær urðu að fá að vera með. Hér kemur því ein af þeim sem er algjört dúndur og súper einfalt að gera. Annars eru yfir 90% uppskriftanna í bókinni nýjar og óséðar uppskriftir og þær verða að fá að vera leyndó aðeins lengur.“

Tiramisu dálætið hennar Berglindar Hreiðars

4 eggjarauður

140 g flórsykur

500 g Mascarpone rjómaostur við stofuhita

Fræ úr einni vanillustöng

500 ml þeyttur rjómi (skipt í 100 ml og 400 ml)

230 ml kaffi (kælt)

3 msk. Captain Morgan Black Spiced romm

Um 2 ½ pk. Lady fingers kex (hver pakki 125 g)

Bökunarkakó til skrauts

 • Þeytið saman eggjarauður og flórsykur þar til létt og þykk blanda myndast (um 5 mín).
 • Bætið þá Mascarpone osti og fræum úr vanillustöng saman við og þeytið vel áfram þar til vel blandað.
 • Vefjið þá 100 ml af þeyttum rjóma saman við með sleif og leggið blönduna til hliðar.
 • Hellið kaffi og rommi saman í grunnan disk með köntum sem auðvelt er að dýfa kexinu í án þess að kaffæra því alveg.
 • Dýfið Lady fingers kexi snöggt í kaffi/romm á báðum hliðum og raðið í botninn á um 25×25 cm formi (passið ykkur að gegnbleyta það ekki því þá verður það lint og slepjulegt).
 • Setjið helming rjómaostablöndunnar yfir kexið og dreifið úr með kökuspaða.
 • Dýfið næsta lagi af kexi í kaffi/romm og leggið ofan á og smyrjið síðan restinni af rjómaostablöndunni þar yfir.
 • Plastið og kælið í að minnsta kosti 4 klukkustundir (eða yfir nótt).
 • Setjið að lokum 400 ml af þeyttum rjóma í sprautupoka/zip-lock með um 2 cm gati og sprautið jafnt í bústnar doppur ofan á rjómaostablönduna (ég sprautaði 8×8 doppur í þetta ferkantaða kökuform).
 • Setjið bökunarkakó í sigti og stráið yfir rjómann.
 • Skerið í sneiðar og berið fram með fallegum hætti.

Njótið vel.

F&H Bókkápan Saumaklúbburinn BH 1.png

Glæsileg og aðlaðandi bókarkápan á nýjustu bók Berglindar en Berglind tók allar myndirnar í bókinni sjálf.

F&H Tiramisu Berglindar H nr2.jpg

Sjáið guðdómlega dálætið, Tiramisu hennar Berglindar Hreiðars. Ávallt gaman að bera fram á fallegan hátt og njóta stundarinnar.