Griða­staðurinn í Kjós þar sem sköpunar­krafturinn blómstrar

1. júní 2020
17:54
Fréttir & pistlar

Draumur margra er að eiga sumar­hús og eiga þar ljúfa stundir með fjöl­skyldum sínum. Hjónin Brynja Dadda Sverris­dóttir og Haf­þór Bjarna­son létu drauminn sinn rætast árið 2014 þegar þau keyptu sér lóð fyrir sumar­hús í Norður­nesi í Kjós. Þau hönnuðu og smíðuðu sitt eigið sumar­hús með hjálp góðra manna og tveimur árum síðar, árið 2016, var húsið risið. Sjöfn Þórðar heim­sækir Brynju og Haf­þór í Kjós í sumar­húsið sem hefur fengið heitið Mó­berg.

Mó­berg stendur á fal­legum stað í Norður­nesinu þar sem náttúran í kring skartar sínu fegursta og út­sýnið yfir fjöll og dali gleður augað. Sjöfn fær að skyggnast inn í sumar­húsið þeirra sem þau hafa meira og minna hannað og smíða sjálf af natni og ást­ríðu. „Þetta er griða­staðurinn okkar, hér líður okkur best,“segir Brynja Dadda og segir að hér komist þau út úr ys og þys hvers­dagsins og um­lyki sig náttúrunni.

Þeim hjónum er margt til lista lagt og það má með sanni segja að list­rænir hæfi­leikar þeirra fá notið sín í Kjósinni. Þau eru aldrei verk­efna­laus og það má með sanni segja unni hag sínum vel í sveitinni. Það er ekki bara sumar­húsið sem þau eru búin að reisa, þau hafa komið sér upp mat­jurta­garði, kar­töflu­garði, snotru og huggu­legu gróður­húsi, smíða­verk­stæði og sauna svo fátt sé nefnt. Það er heill ævin­týra­heimur út af fyrir sig að rölta um sumar­húsa­jörðina þeirra þar sem hvert leyndar­málið á fætur öðru er að finna. „Pít­sa­ofninn er eitt best geymda leyndar­málið okkar hér í Mó­berginu, hér getum við líka bakaða brauð,“ segja þau Brynja og Haf­þór. Út­sjónar­semin, hug­mynda­auðgin er ó­þrjótandi og nýting á jarð­veginum er til fyrir­myndar í alla staði. Þau hjónin eru iðin að rækta og skapa allt það sem þeim langar til að hafa í sveitinni sinni.

Fal­leg hand­verk eftir þau hjónin er að finna í sumar­húsinu og utan húss. Haf­þór nýtur sín allra best í sveitinni og segist fá inn­blástur fyrir sköpun hand­verka sinna út í náttúrunni. Í Mó­berginu smíðar hann og málar eins og enginn sé morgun­dagurinn. Þá eru það helst nytja- og skraut­munir unnir úr tré eins og gamal­dags barna­leik­föng, vagnar, vöggur og vöru­bílar. Einnig hannar hann og smíðar skurðar­bretti og ýmis eld­hús­á­höld. Eiga þau hjónin lítið fjöl­skyldu­fyrir­tæki sem ber nafnið Hnyðja þar sem þessi vönduð og ein­stöku hand­verk eru til sölu. Í þættinum ætlum við einnig að svipta hulunni af smíða­verk­stæðinu þeirra og hand­verkunum sem þar leynast.

Missið ekki af á­huga­verðri og skemmti­legri heim­sókn til þeirra hjóna í Kjós þar sem þið fáið kynnast sælu­reitnum þeirra.

Þátturinn Fast­eignir & Heimili verður á dag­skrá í kvöld klukkan 20.30 og er að jafnan ferskur, fjöl­breyttur og með per­sónu­legum blæ.