Göng undir Fjarðarheiði er bilun sem verður að stöðva

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar, segir að jarðgöng undir Fjarðarheiði kosti 47 milljarða sem hann ætlar að fjármagna m.a. með því að efna til gjaldtöku í öllum jarðgöngum á landinu. Reynslan sýnir að framkvæmdakostnaður við jarðgöng fer ávallt langt fram úr áætlun. Þannig urðu Vaðlaheiðargöng tvöfalt dýrari en upphaflega var áætlað, enda er jarðgangnagerð flókið verk sem Íslendinga skortir reynslu til að framkvæma. Ætla má að jarðgöng undir Fjarðarheiði endi með því að kosta íslenska skattgreiðendur 80 til 100 milljarða króna. Veikur fjárhagur ríkisins leyfir það alls ekki.

Sigurður Ingi sló því fram í viðtali að „samfélagslegur ávinningur gangnanna sé GÍFURLEGUR.“ Hann rökstuddi það ekkert frekar en hélt þessu fram með óábyrgum hætti landsbyggðarkjördæmapotarans.

Mannlíf hafði af þessu tilefni samband við innviðaráðuneytið og óskaði eftir nánari útlistun á því hver sá ávinningur væri. Í svari ráðuneytisins kom m.a. fram: „Tilgangurinn með jarðgöngum undir Fjarðarheiði er að gera samgöngur á Austurlandi áreiðanlegar og öruggar og rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar.“

Það var og. Almenn og innihaldslaus orð. Engin haldbær rök voru færð fram í svari ráðuneytisins. Einungis innantómt og óábyrgt glamur.

Væri ekki ráð að leggja fram útreikninga á því hvað það gæti kostað ríkissjóð að frelsa þessa fáu íbúa sem valið hafa að búa á Seyðisfirði frá því að búa þar við hættur að skriðuföllum og einangrun? Á Seyðisfirði hafa nokkur hundruð manns vetrarsetu og eiga þar íbúðir og einhver önnur mannvirki. Ríkissjóður gæti afhent öllum íbúðareigendum á Seyðisfirði húsnæði til eignar og afnota í byggðarlögum á Austurlandi og Norðurlandi sem eru örugg og vænleg til búsetu vegna atvinnumöguleika og þátttöku í boðlegu mannlífi. Íbúða- og húsnæðisverð er ekki hátt í byggðarlögum eins og Egilsstöðum, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Vopnafirði svo dæmi séu tekin. Sama gildir um Húsavík, Kópasker og Þórshöfn.

Á þessum stöðum gæti ríkissjóður keypt frambærilegar eignir og afhent húseigendum á Seyðisfirði til eignar og afnota, skattfrjást. Þetta myndi kosta ríkissjóð lítið brot af því sem fjárfesting í jarðgöngum kosta. Þá lægi beinast við að flytja viðkomuhöfn Norrænu til Reyðarfjarðar. Eftir það mætti loka Seyðisfirði með góðri samvisku. Alla vega yfir vetrar- og hausttímann án þess að ríkissjóður þyrfti að hafa gríðarleg útgjöld af óarðbærum jarðgöngum undir Fjarðarheiði.

Svona hugsa ekki stjórnmálamenn. Þeir eru tilbúnir að standa fyrir gölnum verkefnum. Á það þó einkum við um framsóknarmenn sem vilja láta skattgreiðendur borga hvað sem er fyrir ódýru atkvæðin á afskektum stöðum, sem tryggja flokknum áhrif umfram það fylgi sem hann hefur. Feigðarflan af þessu tagi verður að stöðva.

- Ólafur Arnarson.