Góð­hjartaður maður bauð Guðna bílinn sinn í þrjár vikur – Vildi bara fá eitt í staðinn

Guðni Már Hennings­son, út­varps­maðurinn góð­kunni, er væntan­legur til Ís­lands á næstunni í til­efni af út­gáfu endur­minninga sinna. Eins og kunnugt er býr Guðni á Tenerife þar sem hann hefur það nota­legt í góða veðrinu.

Guðni hugðist leigja sér bíl meðan á dvöl hans hér á landi stendur og leitaði hann til Face­book-vina sinna á dögunum um góð ráð í þeim efnum og hag­stæðar bíla­leigur. Það er skemmst frá því að segja að Guðni þarf ekki að borga stór­fé fyrir bíla­leigu­bíl því góð­hjartaður maður setti sig í sam­band við hann og bauðst til að lána honum sinn bíl.

„Það hafði sam­band við mig maður í gær. Ég nefni ekki nafn hans en hann bauðst til að lána mér bíl í þrjár vikur í nóvember! Hann vildi fá eina bók í staðinn. Það þótti honum næg borgun. Ég er fullur þakk­lætis í garð þessa manns,“ segir Guðni Már en bók hans, Þó nokkur augna­blik, kemur út í nóvember.

Guðni hefur þegar birt nokkur brot úr bókinni á Face­book-síðu sinni, en hann hefur unnið baki brotnu við skriftir undan­farna mánuði. Margir virðast bíða spenntir eftir bókinni og sagði Guðni Már frá því í morgun að bókin væri nánast upp­seld – og það áður en hún kemur út.

„Þið sem hafið á­huga, drífið í að panta, ef þið eruð ekki þegar búin að því,“ sagði Guðni en hægt er að leita hann uppi á Face­book og panta hjá honum bók. Eins og hann bendir á fer hver að verða síðastur í þeim efnum.